Nesstofa við Seltjörn-Útgáfuhóf
Nesstofa við Seltjörn eftir Þorstein Gunnarsson arkitekt í útgáfu Þjóðminjasafns Íslands er komin út. Bókin er mikilvægt innlegg í rannsóknir á dansk - íslenskri byggingarlistasögu og veitir um leið innsýn í aðferðir við endurgerð gamalla húsa. Í tilefni útgáfunnar býður Þjóðminjasafn Íslands í útgáfuhóf föstudaginn 19. ágúst kl. 16.00, vegna útgáfu bókarinnar Nesstofa við Seltjörn eftir Þorstein Gunnarsson, arkitekt.
Útgáfuhófið verður haldið í Nesstofu, Neströð 11, Seltjarnarnesi.
Í bókinni greinir Þorsteinn frá sögu hússins sem var reist á árunum 1760-1767 í samstarfi Dana og Íslendinga og endurgerð þess. Bygging hússins var liður í því að efla íslenskt samfélag með bættri stjórnsýslu og innviðum, en bústaður fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar ásamt vísi að læknaskóla og ljósmæðranámi var í húsinu. Í Nesstofu hófst opinber lyfsala árið 1772.