HönnunarMars

HönnunarMars er stærsta hönnunarhátíð á Íslandi þar sem framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti. HönnunarMars boðar nýjungar og óvænta nálgun. Hátíðin er lífleg höfn hugmynda, ólíkra sjónarmiða og þekkingar, hreyfiafl sem auðgar og bætir samfélagið.

Hátíðin er skipulögð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og hefur farið fram árlega síðan árið 2009. Hún er eitt helsta kynningarverkefni íslenskrar hönnunar og arkitektúrs innanlands sem og á alþjóðlegum vettvangi. 

Mörg hundruð viðburðir, sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar eru ár hvert, skipulagðir af íslenskum hönnuðum og arkitektum, fyrirtækjum og stofnunum en þátttakendur eru um 400 talsins á hverju ári auk þess sem þátttaka erlendra gesta eykst með hverju árinu.

HönnunarMars er ein af fáum hönnunarhátíðum í heiminum þar sem ólíkar fagreinar hönnunar og arkitektúrs koma saman, allt frá fatahönnun til vöruhönnunar, arkitektúrs, grafískrar hönnunar, textílhönnunar, leirlistar, þjónustuhönnunar, stafræn hönnunar svo dæmi séu nefnd. 

HönnunarMars 2021 fer fram dagana 19-23. maí 2021. Opnað hefur verið fyrir umsóknir þátttakenda, frestur til 30. nóvember. Meira hér.

DesignTalks

Frá DesignTalks 2019

Einn af lykilviðburðum hátíðarinnar er alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks, sem hefur síðustu ár farið fram fyrir fullu húsi í Silfurbergi í Hörpu. Heill dagur fullur af innblæstri þar sem alþjóðlegir hönnuðir, arkitektar og aðrir skapandi hugsuðir koma saman en ráðstefnan varpar ljósi á hlutverk og áhrifamátt hönnunar í samfélaginu. Harpa er eitt af frægustu kennileitum Reykjavíkur og byggingin hlaut hin eftirsóttu Mies van der Rohe verðlaun fyrir arkitketúrinn.

Í gegnum árin hafa fjölmargir eftirsóttir fyrirlesarar komið fram á DesignTalks. Þar má nefna arkitektinn Bjarke Ingels, fatahönnuðinn og aktívistann Katharine Hamnett, Winy Maas, Paul Bennett of IDEO, arkitektinn Kristian Edwards frá Snøhetta, farathönnuðinn Henrik Vibskov, Robert Wang of Google Creative Lab, Studio Swine, fatahönnuðinn Calvin Klein, Daisy Ginsberg, Jonathan Barnbrook, Eley Kishimoto, Jessica Walsh of Sagmeister&Walsh, Ilkka Supponen, Marti Guixé, Jersey Seymour, Marcus Fairs frá Dezeen, Anthony Dunne of Dunne & Raby, Marshmallow Laser Feast, Marije Vogelzang and many more.

Hlín Helga Guðlaugsdóttir, ráðgjafi og hönnuður hefur verið stjórnandi DesignTalks frá árinu 2015.

Design Diplomacy

Frá DesignDiplomacy á hátíðinni 2018

Design Diplomacy er einn af opinberum viðburðum HönnunarMars en viðburðaröðin hefur hlotið mikið lof síðan hún var fyrst kynnt til leiks árið 2017. Á Design Diplomacy bjóða erlendir sendiherrar hönnuðum frá sínu landi til samtals við íslenska kollega sína og opna heimili sitt og bjóða upp á líflegar samræðum og opið samtal um starf þeirra og önnur hönnunartengd málefni milli hönnuða fyrir gesti.

Hver viðburður fer þannig fram að hönnuður frá landi gestgjafans ræðir við íslenskan kollega sinn með aðstoð spurningaspjalda sem ætlað er að til að leiða til áhugaverðs samtals. Umræðuefnin tengjast hönnun en einnig ýmsum öðrum sviðum lífs og starfs hönnuða.

Design Diplomacy er framleitt í samstarfi við Helsinki Design Week. 

DesignMatch

DesignMatch er viðskiptastefnumót þar sem paraðir eru saman hönnuðir og framleiðendur til að kanna mögulegan grundvöll fyrir samstarfi. Fjöldi velheppnaðra samstarfa milli íslenskra hönnuða eiga upphaf sitt að rekja til DesignMatch viðburðarins sem var fyrst haldinn árið 2010. Í gegnum tíðina hafa 32 virt alþjóðleg fyrirtæki tekið þátt, 120 hönnuðir og yfir 188 fundir verið á DesignMatch.

HönnunarMars hefur fest sig í sessi sem mikilvægt hreyfiafli í íslensku samfélagi og endurspeglar breiddina og kraftinn í íslensku hönnunarsamfélagi þvert á greinar.

Á hátíðinni gefst gestum og þátttakendum tækifæri til að auðga andann, sækja innblástur og kynna sér það helsta sem er að gerast á hverju ári í hönnunarsamfélagi landsins. 

Myndband frá HönnunarMars 2020 sem fór fram dagana 24-28. júní.