Nýir starfsmenn í teymi HönnunarMars
Þura Stína Kristleifsdóttir og Klara Rún Ragnarsdóttir hafa verið ráðnar tímabundið sem starfsmenn HönnunarMars sem fer fram 19.-23. maí 2021.
Þura Stína er upplifunarhönnuður hátíðarinnar og mun veita ráðgjöf sem snýr að listrænni stjórnun á dagskrá hátíðarinnar og bera ábyrgð á upplifunarhönnun og framkvæmd viðburða sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur fyrir á HönnunarMars í samstarfi við stjórnanda hátíðarinnar og aðra verkefnastjóra. Hún útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2016 og hefur unnið sem hönnuður á auglýsingastofunni Brandenburg og viðskiptastjóri, hönnuður og framleiðandi á auglýsingastofunni Ketchup Creative. Þura Stína hefur sömuleiðis tekið þátt í fjölda sýninga á sviði hönnunar, leiklistar og tónlistar í gegnum tíðina.
„HönnunarMars er svo mikilvægur partur af íslensku hönnunarlífi bæði sem uppskeruhátíð fyrir hönnuði og arkitekta en einnig sem samantekt af því sem er að gerast í samtímanum hverju sinni. Ég er þess vegna ótrúlega spennt að fá að vinna að hátíðinni 2021 og hlakka sérstaklega til að eiga samtalið í ár.“
Klara Rún er verkefnastjóri dagskrár HönnunarMars 2021 en hún starfaði einnig við hátíðina í 2020. Klara Rún mun starfa með stjórnanda hátíðarinnar í undirbúningi dagskrár og vinna náið með valnefnd og þátttakendum HönnunarMars til að tryggja gæði dagskrárinnar hvað varðar staðsetningar, tímasetningar og tengingar á milli viðburða og sýninga. Hún er með BA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og MCM gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum við Bifröst.
„Að vinna að HönnunarMars í júní 2020 var í senn lærdómsríkt og krefjandi sökum óvissutíma, en umfram allt var það skemmtilegt og gefandi. Sérstaklega stóð upp úr að kynnast vel hönnunarsamfélaginu með sínum kraumandi sköpunarkrafti og ég hlakka mikið til að vinna náið með öllum þátttakendum fyrir hátíðina 2021.“
Klara Rún og Þura Stína hafa nú þegar hafið störf.
Undirbúningur fyrir HönnunarMars 2021 er nú í fullum gangi og dagskráin óðum að taka á sig mynd en yfir 100 sýningar munu breiða úr sér um höfuðborgarsvæðið og nágrenni dagana 19. - 23. maí þó að allur maímánuður verði undirlagður hönnunartengdum viðburðum með einum eða öðrum hætti.
HönnunarMars er ein af borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og nýtur góðs stuðnings frá borginni sem slík. Ráðningarnar eru hluti af vinnumarkaðsaðgerðum borgarinnar um fjölgun starfa á tímum Covid.