Norrænir Design Diplomacy viðburðir í New York
Annað árið í röð eru haldnir norrænir Design Diplomacy viðburðir í New York þar sem sendiherrar og aðalræðismenn Norðurlandanna opna dyrnar að heimilum sínum fyrir samtöl um hönnun. Hlynur Atlason, hönnuður sem býr og starfar í New York tekur þátt fyrir Íslands hönd og á samtal við Todd Bracher, hönnuður frá New York, á heimili aðalræðismanns Íslands, Hlyns Guðjónssonar.
Viðburðurinn er rafrænn að þessu sinni sökum Covid 19 og hægt að horfa á hér fyrir neðan. Samtölin eru tekin upp fyrirfram og birt dagana 13. - 18. maí í samstarfi við hönnunardagana NYCxDESIGN. Áhorfendur fá tækifæri til að horfa á áhugaverð samtöl um hönnun og einnig skyggnast í stafrænni leiðsögn inn í einstök heimili í New York byggð á norrænum gildum.
Design Diplomacy viðburðirnir eru haldnir í samstarfi, Norrænu sendiráðana í New York og Helsinki Design Week, sem á hugmyndina. Sérsniðin spurningaspjöld eru notuð til þess að hefja hönnunarmiðaða umræðu og kryfja til mergjar innblástur, daglega rútínu og vinnuferli hönnuða.
Í Design Diplomacy viðburðum blandast saman hefðbundið og óformlegt samtal þar sem tækifæri gefst til að skoða hvernig hönnun getur verið brú milli ólíks bakgruns, menningar og gilda. Tveimur sérfræðingum á sviði hönnunar er boðið til samtals þar sem þeir deila reynslu og sjónarhorni og fjalla um hvernig það er vinna sem hönnuður á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.
Design Diplomacy viðburðurinn á heimili aðalræðismanns Íslands er undirbúinn í samstarfi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, HönnunarMars, Wanted Design NY og Iceland Naturally. Hlynur Atlason er íslenskur hönnuður sem býr og starfar í New York, stofnandi og eigandi ATLASON/studio. Todd Bracher er bandarískur hönnuður sem á og rekur Todd Bracher Studios.
Þeir sem koma fram á Nordic Design Diplomacy eru: Einar Hagem (LundHagem), Francine Houben, (Mecanoo), Hlynur Atlason, (ATLASON / studio), Todd Bracher (Todd Bracher Studio), Teemu Suviala (Facebook Reality Labs), Debbie Millman (Design Matters), Eva Christine Jensen (Eva Jensen Design), Kyle Bergman (Architecture and Design Film Festival), Claudine Eriksson (grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi) og Anna Burckhardt (sýningarstjóri og rithöfundur).
Viðburðurinn er styrktur af Norrænu ráðherranefndinni.