HönnunarMars breiðir úr sér í maí
Dagskrá stærstu hönnunarhátíðar landsins er komin í loftið með um 80 sýningum sem endurspegla einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags á þessum umbrotatímum í öflugu samstarfi við nýsköpunargeirann, atvinnulífið, sendiráð Íslands út í heimi svo fátt eitt sé nefnt.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Opinberar dagsetningar hátíðarinnar eru 19. - 23. maí en hátíðin breiðir úr sér yfir mánuðinn. Engir stórir og mannmargir viðburðir eru á hátíðinni í ár vegna Covid og öll áhersla á sýningar hönnuða og arkitekta sem eru um allt höfuðborgarsvæðið og nágrenni. Rafræn málþing og hlaðvörp tengd hönnun og arkitektúr eru meðal nýjunga í dagskrá hátíðarinnar í ár.
Allar sýningar og sýningarstaðir HönnunarMars fylgja gildandi sóttvarnarreglum er varða samkomutakmarkanir og grímuskyldu.
Nú birtir til. HönnunarMars maí er að raungerast. Fram undan er fimm daga hönnunarhátíð með fjölbreyttri og spennandi dagskrá þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri fá innsýn inn í einstaklega áhugaverðan heim hönnuða og arkitekta og fyllast innblæstri.
Helstu sýningarsvæði hátíðarinnar í ár eru Gróska, Hafnartorg, Ásmundarsalur, Harpa, Elliðaárdalurinn, Norræna húsið, Grandi, Hönnunarsafn Íslands, Epal, Ásmundarsafn, Ráðhús Reykjavíkur, Kópavogur, Miðbær, Listasafn Einars Jónssonar, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, Hannesarholt, Þjóðminjasafn Íslands og svo breiða sýningar sér yfir allt stór- Reykjavíkursvæðið.
Sjáumst á HönnunarMars í maí!