Minn HönnunarMars – Svana Lovísa Kristjánsdóttir
Nú er HönnunarMars er á fullu. Dagskráin telur um 80 sýningar og 100 viðburði sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn. Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars 2020 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Svana Lovísa, vöruhönnuður og bloggari, ætlar ekki að láta framhjá sér fara
Circle – Hafnarfjörður
Ég mun án efa fá mér göngutúr í mínum heimabæ, Hafnarfirði, og kíki þá við hjá Anthony og Ýr í The Shed og skoða sýninguna Circle þar sem unnið er með matarafganga úr nærumhverfinu og úr þeim verða til nýjir hlutir fyrir heimilið. Virkilega áhugavert.
Efni:viður – Hafnarborg
Þaðan mun leið mín liggja röltandi yfir í Hafnarborg að skoða samsýninguna Efni:viður þar sem hönnuðum og listafólki með mismunandi bakgrunn er teflt saman. Öll verkin eru unnin úr sama efni:við
Morra x Pastel Flúrógrafía
Ég er virkilega hrifin af verkum Morra og elska einnig blómin frá Pastel svo þegar þær stöllur sameinast með eina sýningu þá hlýtur útkoman að verða einstaklega falleg.
Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd – Epal
Hér verður til sýnis úrval af áhugaverðri hönnun eftir mjög fjölbreyttan hóp hönnuða; húsgögn, vöruhönnun, keramík, textíll og fleira spennandi. Í leiðinni mun ég skoða það besta af Skandinavískri hönnun í versluninni.
Sveinn Kjarval, það skal vanda sem lengi á að standa – Hönnunarsafn Íslands
Sýning á verkum Sveins Kjarval sem má ekki láta framhjá sér fara. Sjónum er beint að mikilvægu brautryðjendastarfi hans á sviði húsgagna- og innanhússhönnunar um tveggja áratuga skeið (1950 - 1970). Sýningin stendur fram í ágúst.
Göngugatan – Hafnartorg
Hér munu ólíkir hönnuðir og hönnunar stúdíó sýna verk sín sem einnig verða til sölu beint frá hönnuði. Hér verður einnig nemendasýning keramíkbrautar MÍR ásamt verkum á vegum FÍT félagi íslenskra teiknara. Margt spennandi hér að sjá!
Vanishing Point – Norræna húsið
Norræna húsið er alltaf gaman að heimsækja, og sýning Rögnu Ragnarsdóttur, Vanishing Point er áhugaverð. Þar verður sýnd útkoma rannsóknarvinnu þar sem unnið var með epoxy resin, litarefni og ljós.