Óskað er eftir teymi til að vinna deiliskipulag fyrir Farsældartún í Mosfellsbæ
Farsældartún, sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna, í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auglýsir valferli án tillagna þar sem leitað er að teymi til að vinna nýtt deiliskipulag fyrir Farsældartún í Mosfellsbæ.
Valferli án tillagna tryggir að verkkaupi og teymi geti átt í nánu samtali, samstarfi og skipst á skoðunum um verkefnið, hugmyndir og markmið áður og á meðan vinna við tillögugerð fer fram. Markmið þessa valferlis er að finna teymi til samstarfs sem mun vinna deiliskipulagið í miklu og góðu samstarfi við stjórnendur og notendur Farsældartúns.
Farsældartún
Farsældartún í Mosfellsbæ er í eigu sjálfseignarstofnunar sem er rekin í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna. Á svæðinu, sem áður nefndist Skálatún, hefur verið veitt þjónusta fyrir fatlað fólk allt frá árinu 1954. Árið 2023 urðu breytingar á fyrirkomulagi þjónustunnar, sem nú er í höndum Mosfellsbæjar sem og breytingar á eignarhaldi svæðisins sem nú er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar. Til framtíðar mun byggjast upp á svæðinu þjónusta fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Í Farsældartúni verða staðsettar opinberar stofnanir, félagasamtök og ýmsir aðilar sem sinna þjónustu við börn. Markmiðið er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu og bæta þannig þjónustu við börn og ungmenni auk þess að úrræði fyrir börn og ungmenni verða staðsett á svæðinu.
Umfang verkefnisins
Farsældartún er um það bil sex hektara svæði sem stendur við Vesturlandsveg. Nú standa þar 12 fasteignir sem telja alls 5.000 m2. Hluti þeirra fasteigna mun ekki standa á svæðinu til framtíðar. Í nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir nýbyggingum á svæðinu sem eru sérhannaðar fyrir þá þjónustu sem þar á að veita, en í Farsældartúni verða opinberar stofnanir, auk húsnæðis fyrir sjálfstætt starfandi sérfræðinga og félagasamtök. Í Farsældartún munu leita börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í leit að þjónustu af ýmsu tagi. Húsnæði, leiksvæði og útisvæði þarf að vera hannað með tilliti til þess. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum á svæðinu. Svæðið er stórt, býður upp einstaka möguleika og er vel staðsett með tilliti til aðgengis og nálægð við helstu umferðaræðar.
Markmið verkefnisins
Verkefnið snýst um að móta framtíðarskipulag fyrir Farsældartún. Á svæðinu verða ýmsar byggingar sem munu hýsa aðila sem veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Gert er ráð fyrir að skipulag svæðisins taki mið af því að styðja sem best við farsæld barna en á svæðinu munu m.a. verða opinberar stofnanir, auk félagasamtaka og sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Hringrásarhugsun skal höfð að leiðarljósi við gerð deiliskipulagsins.
Teymið
Æskilegt er að í teymi séu a.m.k. einn arkitekt og einn landslagsarkitekt með góða þekkingu á deiliskipulagsgerð, sjálfbærum lausnum og þarfagreiningu.
Áhersla er lögð á eftirfarandi við verkefnið
- Að setja börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í fyrsta sæti.
- Að skapa aðlaðandi, innihaldsríkt og lifandi umhverfi.
- Að endurnýta fasteignir sem hægt er að nýta og staðsetja nýjar byggingar.
- Huga vel að öllum útirýmum og tengingum á milli þeirra og bygginga og skapa vönduð, vistleg og skjólgóð útisvæði.
- Taka þarf tillit til sérkenna svæðisins og nýta eins vel og hægt er þann gróður sem fyrir er á svæðinu.
- Í tillögunni þarf að huga að öllum samgöngum, hvort sem það er fyrir gangandi, hjólandi eða akandi umferð og að góðum bílastæðalausnum.
- Hringrásarhugsun skal höfð að leiðarljósi.
Áherslur valnefndar
- Hugmyndafræði og nálgun við verkefnið.
- Þekking, reynsla og fyrri verkefni.
- Verkefnastjórnun og reynsla til að leysa flókin og stór verkefni.
- Samsetning teymis, menntun og reynsla.
- Teymi þarf að geta hafið vinnu við verkefnið fljótt.
Framkvæmd
Valnefnd velur 3-5 teymi úr innsendum umsóknum og boðar þau til fundar til að ræða mögulegt samstarf þar sem farið verður yfir áherslur valnefndar sem liggja til grundvallar. Eftir fundina er teymi valið til að taka verkið að sér. Gert er ráð fyrir að teymið geti hafið störf strax og markmiðið er að tillögugerð sé lokið haustið 2024.
Tímalína
19. mars - Valferli auglýst.
11. apríl - Skilafrestur umsókna kl. 12.00 að hádegi.
15. - 16. apríl - Viðtöl við teymi.
22. apríl - Niðurstaða kynnt.
Valnefnd
Tilnefndir af verkkaupa:
Haraldur Líndal Haraldsson, stjórnarformaður Farsældartúns.
Kristinn Pálsson, arkitekt og skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar.
Tilnefndir af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs:
Kristján Örn Kjartansson, arkitekt.
Áhugasamir skulu senda inn umsókn, að hámarki fjórar A4-blaðsíður, þar sem fram koma upplýsingar um teymið, fyrri verkefni, menntun, verkefnastjórnun, nálgun og hugmyndafræði sem teymið sér fyrir að leggja upp með í verkefninu. Ekki er ætlast til að sýndar séu tillögur eða hugmyndir að lausnum í umsókninni. Æskilegt er að ferilskrá hvers og eins í teyminum fylgi með umsókninni.
Umsóknarfrestur er til hádegis 11. apríl en gögnum skal skila rafrænt á netfangið samkeppnir@honnunarmidstod.is
Nánari upplýsingar veitir Álfrún Pálsdóttir, alfrun@honnunarmidstod.is