Sýningaropnun I Fallegustu bækur í heimi

Fimmtudaginn 23. janúar kl. 17:00 opnar sýningin Fallegustu bækur í heimi á Hönnunarsafni Íslands, Garðatorgi.
Fallegustu bækur í heimi keppnin hefur verið haldin frá árinu 1963 með það að markmiði að hvetja til aukins alþjóðlegs samtals um bókahönnun. Árlega berast um það bil 600 bækur frá 30 löndum í keppnina og hljóta 14 þeirra verðlaun eða sérstaka viðurkenningu.
Árið 2024 var það bókin Walking as Research Practice / Ganga sem rannsóknaraðferð sem hlaut svokallað Golden Letter sem er hæsta viðurkenningin. Verkið hafði áður hlotið viðurkenningu í hollenskri og svissneskri samkeppninni um bókahönnun. Hönnuður bókarinnar er Jana Sofie Liebe, ritstjóri bókarinnar er Lynn Gommes og útgefandi Soapbox.
Ummæli dómnefndar;
„Lítið en þýðingarmikið verk, innbundið á einstakan hátt með áherslu á handfjötlun. Pappírinn er valinn með tilliti til áþreifanleika, hrjúfur lifandi kantur og ófullkomið form mynda heild sem vekur sterkar tilfinningar og innblástur: Walking as Research Practice sýnir á látlausan hátt hvað hönnun snýst um. Hönnuðurinn Jana Sofie Liebe og ritstjórinn Lynn Gommes hafa skapað bók um göngur sem er fullkomin til lesturs á meðan gengið er, beðið eða staðið.”
Auk hæstu viðurkenningarinnar, Golden Letter, voru 13 bækur til viðbótar verðlaunaðar. Þær eru frá Kína, Tékklandi, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Noregi og Sviss.
Sýningin samanstendur af öllum bókunum fjórtán sem gestir geta flett og skoðað og er sýningin sett upp í samstarfi við Félag íslenskra teiknara og Stiftung Buchkunst
Hönnunarsafn Íslands er opið alla daga frá 12:00 - 17:00, nema mánudaga.

Samhliða sýningunni; Fallegustu bækur í heimi verður bókatengd vinnusmiðja og fyrirlestur á Hönnunarsafni Íslands.
Vinnusmiðjan Sjáðu! bækur, verður föstudaginn 24. janúar kl. 13:00 og er ætluð öllum sem hafa áhuga á bókum, vönu bókagerðarfólki, hönnuðum, lestrarhestum og allt þar á milli. Í vinnusmiðjunni verður lögð áhersla á að vinna með bækur á áþreifanlegan hátt. Þátttakendur fá að kynnast bókum með því að horfa, snerta og eiga við. Hver þátttakandi fær bók í hendur sem hann mun gaumgæfa, lýsa og síðan breyta og um leið kanna hvernig litlar breytingar eins og að brjóta saman, skera eða fjarlægja geta umbreytt því hvernig maður upplifir hlut, og möguleikunum sem hann býður upp á. Jana Sofie og Una María Magnúsdóttir leiða vinnusmiðjuna en þær voru skólasystur í Rietveld Akademíunni í Amsterdam.
Smiðjan miðast við 12 þáttakendur sem bóka sig á Tix.is

Einnig verður fyrirlestur með hönnuðinum Jana Sofie Liebe í tengslum við sýninguna Fallegustu bækur í heimi, sunnudaginn 26. Janúar kl. 13:00. Hún hlaut nýverið verðlaun fyrir hönnun á bókinni Walking as Research Practice sem “Best book design from all over the world 2024, Bókin er hluti af samnefndir sýningu.