Strik Studio hannar nýtt útlit HönnunarMars
HönnunarMars 2025 fer fram dagana 2. - 6. apríl, sautjánda árið í röð og hefur nú hátíðin fengið nýtt útlit sem endurspeglar tíðarandann og þann fjölbreytileika sem hátíðin stendur fyrir en verkefnið var í höndum Strik Studio.
Á síðasta ári auglýsti Miðstöð hönnunar og arkitektúrs eftir tillögum að nýrri nálgun á útliti, ásýnd, rödd og upplifun HönnunarMars og DesignTalks. Ásýnd og miðlun hátíðarinnar hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi enda mikilvægt að skapa henni skýra og sterka umgjörð en um leið endurspegla skapandi og síbreytilegt umhverfi greinanna. Margar tillögur bárust og fyrir valinu varð útfærsla Strik Studio.
Þau Snorri Eldjárn, Viktor Weisshappel, Jakob Hermanns og Auður Albertsdóttir eru teymið á bak við Strik Studio sem hefur vakið eftirtekt fyrir verk sín undanfarið og nálgast þau verkefni sín af mikilli dýpt og fagmennsku. Hönnunarteymið sérhæfir sig í mótun vörumerkja og sköpun ásýndar ásamt víðtækri ráðgjöf á sviði samskipta. Teymið starfar m.a. á sviði mörkunar, myndskreytinga, hreyfimyndagerðar og þrívíddarhönnunar.
Með nýrri ásýnd HönnunarMars leitaðist teymið við að sýna þann margbreytileika sem hátíðin stendur fyrir en hátíðin sameinar allar greinar hönnunar og á sér margar hliðar.
“HönnunarMars gefur fólki færi á að kynna sér ýmsa vinkla íslenskrar hönnunar og jafnvel frá nýju sjónarhorni. Við notuðum þessi sjónarhorn sem útgangspunkt og tól til að skapa spennandi ásýnd sem endurspeglar fjölbreytileika hátíðarinnar. Okkur þótti mikilvægt að skapa sterkt einkenni sem hefur burði til að taka við breytilegu þema hvers árs”
Letrið Bon eftir leturhönnuðinn Gabríel Markan varð fyrir valinu hjá Strik Studio, letrið er ákaflega stílhreint og fellur vel undir heildarásýnd HönnunarMars. Einnig fengu þau Gabríel til að útfæra bak-skáletraða og skáletraða útgáfu af letrinu. Leturnotkunin skapar ákveðin sjónarhorn og býður upp á leik í skilaboðum og í merkinu sjálfu.
Þema HönnunarMars 2025 er "Uppspretta" og algengast er að hugsa sér að uppsprettan marki augnablik í tíma þar sem eitthvað byrjar eða verður til. Teymið nálgaðist þema ársins á framúrstefnulegan hátt, þar sem ljósmyndir hönnuða eru í forgrunni og mynda áhugaverða lifandi samsetningu lita og forma.
“Þetta árið byggjum við á hreyfingu ljósmynda til að myndgera þema hátíðarinnar í ár sem er Uppspretta. Ljósmyndirnar eru frá hönnuðum hátíðarinnar og þannig setjum við þá í forgrunn. Með hreyfingu ljósmyndanna skapast lifandi form sem við notum bæði í myndefni og lykilgrafík. Ákveðnar grunnstoðir útlits eins og litir og form merkis haldast óbreyttar en við komum með breytingar þar sem okkur þótti það eiga við. Nú hefur merkið sveigjanleika til að geta verið stytt niður í skammstöfunina “HMDM” fyrir minni snið.”
Það styttist óðum í HönnunarMars og munu áhugaverðir viðburðir, sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar skipulagt af íslenskum hönnuðum og arkitektum, fyrirtækjum og stofnunum líta dagsins ljós dagana, 2. - 6. apríl. Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks er lykilviðburður hátíðarinnar og fer fram miðvikudaginn 2. apríl í Hörpu.
HönnunarMars er helsta hönnunarhátíð landsins og ein af borgarhátíðum Reykjavíkur. Allt frá upphafi hefur hátíðin sett svip sinn á borgina, þar sem fjölbreyttar og forvitnilegar sýningar, viðburðir og samtöl eru höfð í hávegum og veita jafnframt þátttakendum og gestum innblástur og innsýn í nýjar lausnir og skapandi hugmyndir sem takast á við áskoranir samtímans. Hátíðin er skipulögð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og hefur farið fram árlega síðan árið 2009. Hún er eitt helsta kynningarverkefni íslenskrar hönnunar og arkitektúrs innanlands sem og á alþjóðlegum vettvangi.