Emanuele Coccia á DesignTalks 2025
Emanuele Coccia er heimspekingur og prófessor í félagsvísindum við EHESS (École des Hautes Études en Sciences Sociales) í París. Hann er virtur rithöfundur og starfar með hönnuðum, listamönnum og menningarstofnunum um allan heim. DesignTalks fer fram í Hörpu þann 2. apríl, undir þemanu Uppspretta.
Í verkum sínum tekur Coccia á efnislegri tilveru samtímans, stöðu okkar og sambandi okkar við hana og stuðlar þannig að mikilvægu samtali um fagurfræði samtímans. Í bók sinni Líf plantna (2018) leggur hann til róttæka endurskilgreiningu á stað mannkyns innan sviðs lífsins, í bókinni Heimspeki heimilisins. Heimilisrými og hamingja (2021) kallar hann eftir enduruppbyggingu heimilisrýmis sem hugsanlegrar útungunarstöðvar fyrir félagslegar og efnahagslegar breytingar og í Líf forma. Heimspeki töfranna (2024) ásamt samstarfsmanni sínum til langs tíma Alessandro Michele fyrrverandi creative director hjá GUCCI, nú Valentino, kannar hann sambandi okkar við „hluti“ hvort sem þeir eru listaverk eða hversdagslegir hlutir eða, með hans eigin orðum: „föt eru ekki bara hlutir, þeir eru inngangur að öðrum veruleika“. Aðrir samstarfsaðilar eru m.a. FormaFantasma, Dotdotdot, Triennale di Milano, Cartier Foundation for Contemporary Art í París þar sem hann sýningarstýrði nýlega metnaðarfullri sýningu um tré og sýningu um list og vistfræði hjá 21. Century Museum of Contemporary Art, Kanazawa, Japan.
„Viðhorf Coccias á samsetningu heimsins og hverfulleika tilveru okkar í honum er einstakt og heimspekileg linsa hans á hönnun er bæði inspírerandi og umhugsunarverð fyrir okkar fag. Coccia er skiljanlega orðinn lykilpersóna í alþjóðlegu samtímalistar- og hönnunarsenunni og við erum heppin að fá tækifæri til að bjóða hann velkominn á okkar svið.“ - Hlín Helga, listrænn stjórnandi DesignTalks
Algengast er að hugsa sér að uppsprettan marki augnablik í tíma þar sem eitthvað byrjar eða verður til. Uppspretta hugmynda, innblásturs eða lífs jafnvel! En uppsprettan er líka myndlíking fyrir að endurskoða hugmyndir, taka skref til baka, tengjast aftur upprunanum, hreinsa hugann eða endurnýja sig. Að venju, mun stórkostlegur hópur hönnuða, arkitekta og skapandi hugsuða koma fram á DesignTalks og nálgast þemað út frá ólíkum hliðum.
Taktu daginn frá! Forsalan á DesignTalks er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins.