Sýningin Skilaboð opnar í Hönnunarsafni Íslands
Grafísku hönnuðirnir Katla Einarsdóttir og Una María Magnúsdóttir opna nýja sýningu í Hönnunarsafni Íslands, föstudaginn 24. nóvember kl. 17 sem ber nafni Skilaboð.
Þessa stundina er ein af sýningunum á Hönnunarsafninu föst sýning. Þetta er sýningin Hönnunarsafnið sem heimili, yfirlitssýning yfir muni úr safneign Hönnunarsafnsins sett upp sem grunnmynd af heimili. Til þess að virkja sýninguna í þau fjögur ár sem hún mun standa verða reglulega settar inn í hana svokallaðar „heimsóknir” þar sem hönnuðir og listamenn setja upp tímabundnar sýningarheimsóknir inn á sýninguna. Sýningin Skilaboð er einmitt sú fyrsta af þessum „heimsóknum“.
Með tilkomu nýrra miðla hafa samskipti á milli heimilisfólks breyst og þróast. Samtölum, símtölum og post-itmiðum fækkar og talblöðrur taka við. Í „heimsókninni” Skilaboð skoða hönnuðirnir Katla og Una María skilaboð á milli heimilisfólks á samskiptamiðlum og eru þeirra skondnu hliðar sérstaklega dregnar fram.