Tákn um kynhlutlaus rými gert opinbert á HönnunarMars

Hugi Þeyr Gunnarsson, grafískur hönnuður, vann sigur úr býtum í samkeppni um tákn um kynhlutlaust rými en verðlaunin voru veitt í gær á sýningunni Tákn fyrir kynhlutlaus rými sem nú stendur yfir á HönnunarMars. Tilefni samkeppninnar er að í ár eru fimm ár liðin frá því lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Íslandi. Á fjórða tug tillaga bárust í samkeppnina sem Samtökin ‘78, Félag íslenskra teiknara (FÍT) og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu fyrir og eru þær allar til sýnis á sýningunni sjálfri.
Verk Huga sýnir útlínur fjögurra manneskja sem skarast og mynda þannig rými sem inniheldur fleiri en eina manneskju samtímis. Þessi skörun er táknræn fyrir tilgang kynhlutlausra rýma, sem eru sameiginleg rými allra.
Hugi Þeyr útskrifaðist úr grafískri hönnun frá LHÍ vorið 2024, en þar áður hafði hann lokið tónsmíðanámi frá sama skóla. Hann stundar nú starfsnám í Finnlandi hjá auglýsingastofunni Ääri.

Annað sætið hlaut Kateřina Blahutová fyrir merki sem byggir á leturtákninu * sem er bæði notað sem inngildingartákn í rituðu máli í sumum tungumálum, og einnig sem úrfellingartákn fyrir viðkvæmar eða persónulegar upplýsingar.

Tvær tillögur deildu þriðja sæti. Annarsvegar tillaga Laufeyjar Jónsdóttur og Steinþórs Rafns Matthíassonar, og hinsvegar tillaga Kristins Gunnars Atlasonar.

Markmið keppninnar var að skapa skýrt, skalanlegt og alþjóðlegt tákn sem vinnur gegn kynjatvíhyggju og getur nýst í hönnun framtíðarinnar – bæði hérlendis og erlendis.
Í dómnefnd keppninnar sátu Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ‘78, Reyn Alpha, forseti Trans Íslands, Elías Rúni, grafískur hönnuður og stjórnarmeðlimur FÍT, Hrefna Sigurðardóttir, grafískur hönnuður og lektor í Listaháskóla Íslands, og Hjalti Karlsson, grafískur hönnuður, Karlssonwilker NY.
Sýningin, sem er haldin á Kolagötu, Hafnartorgi, verður opin á HönnunarMars frá 4. - 6. apríl á eftirfarandi tímum.
Föstudaginn 4. apríl: 12:00 – 20:00
Laugardaginn 5 apríl: 12:00 – 16:00
Sunnudaginn 6 apríl: 13:00 – 16:00







