Tanja Levý er upplifunarhönnuður HönnunarMars 2023
Hönnuðurinn Tanja Levý verður upplifunarhönnuður HönnunarMars 2023 og bætist hún inn í öflugt teymi hátíðarinnar sem fer fram dagana 3. - 7. maí næstkomandi.
Tanja mun bera ábyrgð á að skapa og verkefnastýra upplifun og umgjörð hátíðarinnar í samstarfi við stjórnanda, starfsfólk og fagráð. Ásamt því mun Tanja veita faglega ráðgjöf sem snýr að listrænni stjórnun á dagskrá hátíðarinnar og verkefna bakhjarla.
Tanja hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum í gegnum tíðina á sviði t.d búninga- og sviðsmyndahönnunar, meðal annars fyrir íslensku kvikmyndina Abbabbabb og nú síðast fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem fóru fram Hörpu í byrjun desember.
Hátíðin er ein af sex borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og dregur að sér fjölbreyttan hóp gesta, almenning jafnt sem innlent og erlent fagfólk. HönnunarMars gefur gestum og þátttakendum tækifæri til að fá innblástur frá og kynnast fjölbreytileika hönnunar og arkitektúrs og öðlast þekkingu á mikilvægi greinanna í nýsköpun, atvinnulífi og í þróun samfélagsins.
Umsóknarfrestur hátíðarinnar er liðinn og dagskráin að taka á sig fjölbreytta og spennandi mynd fyrir hátíðina 2023. DesignTalks ráðstefnan fer fram 3. maí og er forsala hafinn hér.