Valið úr hópi umsækjanda til að vinna þróunaráætlun fyrir Faxaflóahafnir
Faxaflóahafnir sf í samstarfi við Arkitektafélag Íslands auglýstu í janúar eftir teymi til að vinna þróunaráætlun fyrir Gömlu höfnina í Reykjavík. Alls bárust 9 umsóknir frá mjög sterkum teymum um að taka verkefnið að sér. Eftir valferlið var ákveðið að bjóða teymi sem samanstendur af einstaklingum frá Arkís, KPMG, Landhönnun og Verkís verkið.
Verkefnið sem um ræðir er að móta framtíð Gömlu hafnarinnar í Reykjavík og marka framtíðarstefnu svæðisins. Í valnefnd sátu Ólafur Melsted, landslagsarkitekt, Skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna, tilnefndur af Faxaflóahöfnum; Inga Rut Hjaltadóttir, verkfræðingur, Sviðsstjóri framkvæmdasviðs, tilnefnd af Faxaflóahöfnum og Kristján Örn Kjartansson, arkitekt, FAÍ, tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands.
Umsögn valnefndar:
Teymið býr yfir yfirgripsmikilli getu og þekkingu allt frá skipulagi, hönnun, sjálfbærni og verkefnastjórnun. Teymið dró upp mjög skýra mynd af verkefninu, tímalínunni og útkomunni, bæði í umsókn og í viðtali. Þetta var erfitt val fyrir valnefnd enda öll teymin mjög hæf til að vinna verkið. Það sem skar úr var í þessu tilviki að teymið sem fékk verkið sýndi fram á mikla hæfni á öllum sviðum verksins, gott jafnvægi innan teymis og getu til að horfa á verkið út frá mörgum ólíkum vinklum.
Arkitektafélag Íslands og Faxaflóahafnir þakkar kærlega öllum þeim sem sýndu verkefninu áhuga og sendu inn umsókn og við óskum um leið Arkís, KPMG, Landhönnun og Verkís til hamingju. Við hlökkum til að fylgjast með framhaldinu!