Þrjár samkeppnir um sýningar í þjóðgörðum Íslands
Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður í samvinnu við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Ríkiskaup efna til þriggja samkeppna um sýningar í þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri og gestastofu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs á Skútustöðum við Mývatn.
Auglýst eru þrjú mismunandi forvöl þar sem leitað er að teymum til að vinna að sýningunum þremur á næstu misserum. Vakin er athygli á að heimilt er að sækjast eftir því að taka þátt í fleiri en einni af samkeppnunum þremur en um leið undirstrikað að vinnan að sýningunum fer fram að hluta eða heild samtímis á öllum þremur stöðunum. Teymi þurfa því að hafa burði til þess að vinna að öllum verkefnunum samtímis sækist þau eftir því. Um er að ræða hönnunarsamkeppnir með forvali og nafnleynd.
Tímalína samkeppnanna
Forval
Útboðið er auglýst á evrópska efnahagssvæðinu (EES) 12. apríl
Lokadagsetning fyrirspurna og athugasemda frá þátttakendum er 8. maí.
Skilafrestur þátttökutilkynninga í forvali er 17. maí kl. 12:00.
1 milljón er greidd tillögur sem komast áfram í samkeppni.
Samkeppni
Tilkynning um val þátttakenda í hönnunarsamkeppni 14. júní.
Lokadagsetning hönnunarsamkeppni verður kynnt teymum síðar.
Gestastofa á Kirkjubæjarklaustri
Vatnajökulsþjóðgarður óskar eftir umsóknum hönnunarteyma til að taka þátt í samkeppni um hönnun sýningar á nýrri gestastofu þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri sem nú er í byggingu. Ný gestastofa á að þjóna öllum gestum sem eiga leið um svæðið hvort sem leið þeirra liggur á vestursvæði garðsins eða annað. Jafnframt er það markmið að hún verði athvarf fyrir heimafólk til að koma saman, fræðast og njóta þjónustu garðsins.
Sigurteymi samkeppninnar annast heildarhönnun sýningarinnar ásamt miðlun í öðrum hlutum hússins, grunnhönnun fræðslu á útisvæði og huga að heildarupplifun gesta á gestastofunni. Framkvæmdum verður áfangaskipt og verður í fyrsta áfanga lokið við uppsetningu og framleiðslu innandyra og á því sem tekur fyrst á móti gestum utandyra.
Umfjöllunarefni sýningarinnar voru mótuð eftir samráðsfundi og viðtöl við fólk úr heimabyggð en rauður þráðurinn verður eldvirkni, náttúruhamfarir og áhrif þeirra á land og fólk.
Meginmarkmið sýningarinnar er að gestir skynji hina síkviku náttúru vestan Vatnajökuls og áhrif hennar á mannlíf á svæðinu og í heiminum öllum. Nánar er fjallað um efnistök sýningar í fylgigögnum forvalsins.
Dómnefnd forval
- Benedikt Traustason, náttúrufræðingur og verkefnastjóri Vatnajökulsþjóðgarður
- Hildur Ýr Ottósdóttir, arkitekt Ydda
- Búi Bjarmar Aðalsteinsson, vöruhönnuður
Dómnefnd samkeppni
- Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður á vestursvæði, Vatnajökulsþjóðgarður
- Stefanía Ragnarsdóttir, grafískur hönnuður, fræðslustýra, Vatnajökulsþjóðgarður
- Birgir Teitsson, arkitekt Arkís
- Egill Egilson, vöruhönnuður
Gestastofa við Mývatn - Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun
Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun óska nú eftir umsóknum hönnunarteyma til að taka þátt í samkeppni um hönnun sýningar og á opnu rými nýrri gestastofu í Mývatnsveit. Nú þegar eru breytingar hafnar á gömlu hóteli sem áður var barnaskóli.
Sigurteymi samkeppninnar mun annast heildarhönnun sýningarinnar ásamt miðlun í öðrum hlutum hússins, grunnhönnun fræðslu á útisvæði og huga að heildarupplifun gesta á gestastofunni. Framkvæmdum verður áfangaskipt og verður í fyrsta áfanga lokið við uppsetningu og framleiðslu innandyra og á því sem tekur fyrst á móti gestum utandyra.
Umfjöllunarefni sýningarinnar og áhersluatriði í upplifuninni voru unnin upp úr samtölum við stofnanir tengdar verkefninu og fundum með fólki úr heimabyggð. Rauði þráður sýningarinnar verður Verndun og vísindi. Rannsóknir vísindamanna gefa okkur byr undir báða vængi þegar kemur að því að vernda náttúruna, sýna okkur svart á hvítu hvað við verðum að gera betur og gefa okkur raunhæfa von um að við getum það. Nánar er fjallað um efnistök sýningar í fylgigögnum forvalsins.
Dómnefnd forval
- Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður norður-hálendi, Vatnajökulsþjóðgarður
- Róshildur Jónsdóttir, vöruhönnuður
- Kristján Örn Kjartansson, arkitekt
Dómnefnd samkeppni
- Stefanía Eir Vignisdóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar, Vatnajökulsþjóðgarður
- Dagbjört Jónsdóttir, svæðissérfræðingur, Umhverfisstofnun
- Stefanía Ragnarsdóttir, grafískur hönnuður, fræðslustýra, Vatnajökulsþjóðgarður
- Garðar Eyjólfsson, vöruhönnuður
- Helgi Steinar Helgason, arkitekt Skala
Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi - Snæfellsjökulsþjóðgarður
Snæfellsjökulsþjóðgarður óskar eftir umsóknum hönnunarteyma til að taka þátt í samkeppni um hönnun sýningar í nýrri þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi sem tekin er í notkun í mars 2023. Ný þjóðgarðsmiðstöð á að þjóna öllum gestum sem eiga leið um svæðið sem og heimamönnum á öllum aldri. Í þjóðgarðsmiðstöðinni er ætlunin að veita upplýsingar um þjóðgarðinn, nærumhverfi hans og Snæfellsnes í heild, selja vörur og minjagripi sem eiga uppruna á svæðinu eða tengjast þjóðgarðinum, náttúru hans og sögu og bjóða til sölu veitingar.
Sýningin er hjarta þjóðgarðsmiðstöðvarinnar. Sýningin þarf að höfða til allra aldurshópa, ekki síst barna, og aðgengi og góð upplifun fyrir alla sé tryggt.
Sýningunni, og þjóðgarðsmiðstöðinni sem hönnuð er af ARKIS arkitektum, er ætlað að skapa áhugaverðan áfangastað á Snæfellsnesi í anddyri þjóðgarðsins á Hellissandi. Sýningin á að hafa náttúru, einkenni, sögu og mannlíf undir Jökli í brennidepli sem og Snæfellsnes í heild.
Sigurteymi samkeppninnar mun annast heildarhönnun sýningarinnar ásamt því að koma að lokahönnun og frágangi upplýsinga og verslunar í miðstöðinni. Nánar er fjallað um efnistök sýningar í fylgigögnum forvalsins.
Dómnefnd forval
- Rut Ragnarsdóttir, þjónustustjóri þjóðgarðsins frá Hellissandi // Umhverfisstofnun
- Anton Jónas Illugason, grafískur hönnuður
- María Kristín Jónsdóttir, vöruhönnuður
Dómnefnd samkeppni
- Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður og náttúrufræðingur // Umhverfisstofnun
- Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri (þjóðgarðsráð), verkfræðingur // Umhverfisstofnun
- Birgir Teitsson, arkitekt Arkís
- Friðrik Steinn Friðriksson, vöruhönnuður
- Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður