Vegrún, Teningurinn og lógó Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fengu verðlaun ADC*E
Vegrún, merkingarkerfi úr smiðju hönnunarstofunnar Kolofon, Teningurinn, verðlaunagripur Verkfræðingafélags Íslands eftir Narfa Þorsteinsson og Adrian Frey Rodriquez og lógó heilbrigðisstofnunar Vestfjarða eftir Sigurð Oddsson unnu til verðlauna í alþjóðlegu keppni ADC*E samtakanna.
Vegrún hlaut bronsverðlaun í hönnunarflokki verðlaunanna en merkingarkerfið er sérstaklega hannað fyrir og ætlað öllum þeim sem setja upp merkingar á ferðamannastöðum eða friðlýstum svæðum. Vegrún stendur öllum til boða jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum um allt land. Vegrún var hönnuð til að samræma merkingar hér á landi, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna, auka gæði, samræma upplýsingagjöf og auka öryggi.
Lestu umsögn dómnefndar hér.
Teningurinn, verðlaunagripur Verkfræðingfélags Íslands eftir Narfa Þorsteinsson og Adrian Frey Rodriquez, hlaut einnig bronsverðlaun í sama flokki. Hönnun griparins byggist á 13 teningum sem allir styðja við hvern annan og snúast eftir formúlu Theódórusar, grísks stærðfræðings, eða svo kölluðum Theódórusar spírar. Markmið þeirra var að hanna skúlptúr sem yrði verkfræðilega áhugaverður þar sem stærðfræðiformúla væri nýtt til að búa til form eða geómetríu.
Lógó Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða eftir Sigurð Oddsson hlaut silfurverðlaun fyrir lógó. Stofnunin þjónar öllum íbúum Vestfjarða með allt frá almennri heilsugæslu í tannlæknaþjónustu og þykir einkennið sameina stefnu hennar er kemur að persónulegri ummönnun, samfélagi og hlýju ásamt því að flétta inn náttúrulegu þætti svæðisins, fjarðanna inn í lógóið sjálft.
Art Directors Club of Europe eða ADC*E eru samtök félaga evrópskra hönnuða og auglýsingagerðarfólks. Verk sem vinna til verðlauna í hinni árlegu FÍT keppni öðlast þátttökurétt í samkeppni ADC*E þar sem það besta í grafískri hönnun og auglýsingagerð í Evrópu er verðlaunað ár hvert. Keppnin er dæmd af um 50 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu, en FÍT sendir árlega dómnefnd úr röðum félagsins. Formaður FÍT á sæti í stjórn ADC*E.