Við erum öll almannavarnir fær sérstakt hrós dómnefndar Hönnunarverðlauna Íslands 2021
Við erum öll almannavarnir hlaut sérstakt hrós dómnefndar Hönnunarverðlauna Íslands 2021.
Undanfarin ár hefur dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands veitt viðurkenningar til fyrirtækja fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. Það er þó ekki síður mikilvægt að opinberir aðilar og stofnanir fjárfesti í hönnun innan starfsemi sinnar og í ár þykir dómnefnd verðugt að veita sérstakt hrós fyrir faglega nálgun og fjárfestingu Embættis landlæknis og Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra við gerð og framkvæmd herferðarinnar „Við erum öll almannavarnir“ og efnisgáttina covid.is. Á fordæmalausum tímum urðu embættin að bregðast hratt og örugglega við og fengu auglýsingastofuna Hvíta húsið með sér í lið við útfærslu á fræðsluefni, upplýsingaveitu og samhæfðum aðgerðum ætluðum til þess að stemma stigu við uppgangi Covid-19 faraldursins.
Fyrir vikið fékk krefjandi og flókið verkefni aðgengilegt og létt yfirbragð; myndskreytingar glæða viðfangsefnin manneskjulegum blæ, viðmótið er auðskilið og leiðbeiningar og annað prentefni fyrir fyrirtæki og aðra starfsemi ávallt uppfært og vandað. Tónninn er hlýr og sveigjanlegur og hvetur til samstöðu, sem var einmitt það sem til þurfti.
Heildræn mörkun almannavarna vegna Covid-19 er til fyrirmyndar og fordæmisgefandi fjárfesting í hönnun á vegum hins opinbera.
Hvíta húsið: Davíð Terrazas (listrænn stjórnandi), Rósa Hrund Kristjánsdóttir (hönnunarstjóri), Ágúst Gunnarsson (vefhönnuður), Viktoria Buzukina (myndhöfundur), Guðrún Jónsdóttir (kvikun), Þorgeir Tryggvason (textagerð) og Eiríkur Guðleifsson (ráðgjafi).