„Við getum hjálpað fólki að finna hvað er í raun og veru vandamálið sem við ætlum að leysa“
Hörður Lárusson grafískur hönnuður, stofnandi og eigandi hönnunarstofunnar Kolofon og Magga Dóra, stafrænn hönnunarleiðtogi, stofnandi og eigandi Mennsk ráðgjöf ræða um hönnun í óvæntu samhengi, samstarf á stórum skala, stafrænar umbreytingar, framtíðaráskoranir - og auðmýkt í hlaðvarpi HönnunarMars, DesignTalks talks, sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Hörður og Magga Dóra hafa bæði mikla reynslu í ýmiskonar hönnunarvinnu og eru sem dæmi að vinna þessa stundina með fyrirtækjum á borð við Vegagerðina, Borgarlínuna, Neyðarlínuna, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og þannig mætti lengi telja. Hörður og Kolofon frumsýndi í vor til að mynda Vegrúnu nýtt merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði sem unnið var með Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Í samtali við Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuð og stjórnanda DesignTalks sem hefur umsjón með hlaðvarpinu, kemur meðal annars fram mikilvægi þess að fyrirtæki og hið opinbera nýti sé hönnunarhugsun inn í samtalið.
„Við hönnuðir kunnum og erum með reynslu í að horfa á hlutina öðruvísi, ekkert endilega betur en allavega öðruvísi. Getum talað þvert yfir, kunnum að taka skref tilbaka og sjá þetta og þá kemur kannski hugmyndin sem skiptir máli og ekkert endilega frá okkur,“ segir Hörður sem meðal annars hefur unnið í fjölmörgum verkefnum sem snýr að stafrænni þróun hjá hinu opinbera „Þetta stafræna mun þróast mjög hratt. Við erum alltaf að reyna eitthvað og svo uppgötvuðum eitthvað og gerum tíu útgáfur af því og tíu út frá því, þannig að þetta er rosalega spennandi.“
Magga Dóra tekur undir það „Hið opinbera er byrjað að hugsa svona núna, sjá sig sem þjónustuveitendur. Að þarna úti séu þjónustuþegar, íbúar, borgara og að horfa út á við inn. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan hefði það þótt kjánalegt í opinberum stofnunum. Þá var áherslan meira á að “optimesera” innri ferla og á sparnað en áttuðu sig ekki á því hvað þú færð mikið af upplýsingum með því að horfa út á við inn.“
En hvert er hlutverk hönnuða í að leysa stóru, og litlu, vandamál samtímans?
„Við erum með tólin. Við getum hjálpað fólki að eiga erfiðar samræður. Við getum hjálpað fólki að finna hvað það er sem liggur að baki viðspyrnunni. Við getum hjálpað fólki að finna hvað er í raun og veru vandamálið sem við ætlum að leysa. Og síðan leiða þau áfram að lausninni. Við eigum ekki að draga lausn upp úr einhverjum hatti og segja að nú eiga allir að gera svona,“ segir Magga Dóra.
Hlustaðu á forvitnilegt hönnunarspjall í heild sinni hér:
DesignTalks talks er hlaðvarp um hönnun og arkitektúr og fjallar um víðtæk áhrif greinanna í samfélaginu og ástríðuna sem liggur þar að baki. Það er samtalsvettvangur þar sem fjallað er um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Nýsköpun, tækni, samfélagslegar áskoranir, loftslagsmál og hvað-eina, af því að þannig er hönnun: snertir við öllu og getur verið mikilvægur drifkraftur nýsköpunar og samfélagslegra framfara. Þættirnir eru fimm talsins.
Aðrir viðmælendur þessarar fyrstu seríu hlaðvarpsins eru þau Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður og Halldór Eldjárn, Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður, verkefnastjóri hjá Li Edelkoort Inc. og Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og eigandi fatamerkisins MAGNEA, Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, stofnandi s.pa. og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem er framleitt af Studio HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Tæknimaður er Þorbjörn G. Kolbrúnarson og Halldór Eldjárn samdi stefið.