„Á meðan við getum ekki gert þessar tilraunir í raunheimum, þá þurfum við að gera það í sögunum„
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, stofnandi arkitektastofunnar s.ap ræðir viðfangsefni sín, samtímann og áleitnar spurningar, heildræna hugsun á stórum og smáum skala, hringrásarhönnun - og ímyndunaraflið í hlaðvarpi HönnunarMars, DesignTalks talks, sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
„Ég þekki engan arkitekt sem vill ekki byggja umhverfisvænt og við reynum það flest með því t.d. að velja klæðningar og það sem við mögulega getum en það bara er eiginlega ekki nóg lengur. Þannig að þá þarf kannski að þora að viðurkenna að við erum kannski ekki alveg með þetta þó að við vottum allt voða flott.“
Meðal þess sem Arnhildur vinnur að um þessar mundir er þróunarverkefni um nýtingu hrauns sem byggingarefnis í stað annarra meira mengandi efna líkt og steypu og stáls og verkefni með Space Iceland þar sem verið er að fylgjast með mannvirkjagerð á tunglinu og á Mars og verið að skoða allskonar tækni tilfærslur í því samhengi. Í samtali við Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuð og stjórnanda DesignTalks sem hefur umsjón með hlaðvarpinu kemur fram að henni er umhugað um að við nálgumst áskoranir samtímans af hreinskilni, göngumst við því að við erum ekki með öll svörin og opnum í auknum mæli á samtal tækni, vísinda og hönnunar.
Tæknin er alveg til, við þurfum bara að tala meira saman þvert á fög til að geta nýtt okkur þessar tæknitilfærslur, til þess að eitthvað sem er verið að gera í einhverju allt öðru fagi getum við hönnuðir kannski séð lausnir fyrir ef við fylgjumst svolítið með hvað er að gerast.
Arnhildur er ein fárra hönnuða á Íslandi sem beitir aðferðum spáhönnunar (speculative design) til þess að spyrja áleitinna spurninga og gera tilraunir í ímynduðum heimum: „Á meðan við getum ekki gert þessar tilraunir í raunheimum, þá þurfum við að gera það í sögunum."
Hlustaðu á þáttinn hér
DesignTalks talks er hlaðvarp um hönnun og arkitektúr og fjallar um víðtæk áhrif greinanna í samfélaginu og ástríðuna sem liggur þar að baki. Það er samtalsvettvangur þar sem fjallað er um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Nýsköpun, tækni, samfélagslegar áskoranir, loftslagsmál og hvað-eina, af því að þannig er hönnun: snertir við öllu og getur verið mikilvægur drifkraftur nýsköpunar og samfélagslegra framfara. Þættirnir eru fimm talsins.
Aðrir viðmælendur þessarar fyrstu seríu hlaðvarpsins eru þau Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður og Halldór Eldjárn, Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður, verkefnastjóri hjá Li Edelkoort Inc. og Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og eigandi fatamerkisins MAGNEA, Hörður Lárusson grafískur hönnuður, stofnandi og eigandi hönnunarstofunnar Kolofon og Magga Dóra, stafrænn hönnunarleiðtogi, stofnandi og eigandi Mennsk ráðgjöf, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem er framleitt af Studio HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Tæknimaður er Þorbjörn G. Kolbrúnarson og Halldór Eldjárn samdi stefið.