Nýtt stjórnarfyrirkomulag samþykkt á aðalfundi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Aðalfundur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs fór fram þann 10. júní síðastliðinn í nýjum húsakynnum Miðstöðvarinnar í Grósku. Undir fundinn var borið nýtt stjórnarfyrirkomulag Miðstöðvarinnar og HönnunarMars sem var einróma samþykkt á fundinum.
Stjórn Miðstöðvarinnar hefur unnið að breytingum á skipan stjórnar síðastliðið ár en markmiðið breytinganna er að styrkja tengsl við atvinnulíf og stjórnvöld í rekstri Miðstöðvarinnar.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar sem byggir á hönnun og arkitektúr. Miðstöðin stuðlar að auknu samstarfi milli hönnuða og fyrirtækja og vinnur að því að efla hönnunardrifna nýsköpun sem mótandi afl í samfélagi og atvinnulífi framtíðar á Íslandi.
Breytingin felur í sér að níu manna stjórn, skipuð aðilum frá félögunum sem eiga öll jafnan hluti í Miðstöðinni, verður að fimm manna stjórn, skipuð þrem stjórnarmönnum frá félögunum og tveim fulltrúum atvinnulífs. Hlutverk stjórnar er óbreytt en henni ber meðal annars að vera í góðum samskiptum við hluthafahóp og móta félaginu stefnu í takt við stefnumótandi fundi.
Eftir kosningu á aðalfundi er ný stjórn skipuð eftirfarandi aðilum: Kristján Örn Kjartansson, AÍ, formaður stjórnar, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, FHI, varaformaður stjórnar og Þórunn Hannesdóttir, FVI, var kosin inn sem þriðji stjórnarmaður skipaður af félögum. Auk þeirra koma tveir aðilar í stjórn úr atvinnulífið sem hluthafahópur velur. Ný fullskipuð stjórn verður tilkynnt í haust.
Stofnaður var hluthafahópur skipaður einum fulltrúa frá hverju félagi. Hlutverk hans er að taka þátt að móta stefnu og vinna að faglegum markmið Miðstöðvarinnar ásamt því að hvetja til umræðu, fræðslu og viðburða. Hluthafahópur kýs á aðalfundi fulltrúa félaganna í stjórn Miðstöðvarinnar og í aðrar stjórnir og ráð á vegum Miðstöðvarinnar svo sem HönnunarMars, Hönnunarsjóð, Hönnunarverðlaun Íslands, úthlutunarnefnd hönnunarlauna, Myndstef o.s.frv. Í störfum sínum skal hluthafahópur vinna að hagsmunum allra hluthafa og gæta þess að einstaklingar sem kosnir eru búi yfir nægilegrar þekkingu, reynslu og hæfni til að rækta hlutverk sitt.
Nýr hluthafahópur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er skipaður þeim:
- Ása Gunnlaugsdóttir, Félag íslenskra gullsmiða
- Brynhildur Þórðardóttir,Textílfélagið
- Daði Harðarson, Leirlistafélag Íslands
- Erla Björk Baldursdóttir, Fatahönnunarfélag Íslands
- Gísli Arnarson, FÍT - Félag íslenskra teiknara
- Inga Rut Gylfadóttir, FÍLA - Félag íslenskra landslagsarkitekta
- Kristján Örn Kjartansson, AÍ - Arkitektafélag Íslands
- Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, FHI - Félag húsgagna- og innanhússarkitekta
- Þórunn Hannesdóttir, Félag vöru- og iðnhönnuða
Þær Magnea Einarsdóttir, Fatahönnunarfélag Íslands, Ýr Jóhannsdóttir, Textílfélagið, Ólöf Birna Garðarsdóttir, FÍT, Kristín María Sigþórsdóttir, Félag vöru- og iðnhönnuða og Sigrún Jóna Norðdahl, Leirlistafélag Íslands láta af störfum í stjórninni og er þeim þakkað kærlega fyrir vel unnin störf.
Á aðalfundi var einnig kosið um breytingu á stjórn HönnunarMars, en stjórnarmönnum fjölgar úr þrem í fimm. Í stjórninni munu sitja þrír fulltrúar félaganna og tveir fulltrúar atvinnulífs. Nýa stjórn HönnunarMars skipa þau Bergur Finnbogason, AÍ, Brynhildur Pálsdóttir, FVI, Sigrún Jóna Norðdahl og Anton Jónas Illugason. Auk þeirra bætist við einn aðili úr atvinnulífi sem hluthafahópur velur, en fullskipuð stjórn verður tilkynnt í haust.
Ragna Fróðadóttir, Textílfélag Íslands tekur sæti í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands og Snæfríð Þorsteins, FÍT tekur sæti í stjórn Hönnunarsjóðs. Þá voru einnig kosnir varamenn.
Hér má sjá myndir frá fundinum og af stemmingunni á eftir en langt er síðan stjórnir Miðstöðvarinnar hafa hist í raun og veru og því kærkomið að skála í lok fundar.
Ljósmyndari: Víðir Björnsson.