Yfirborð vekur upp faglega og gagnlega umræðu um umhverfið
Verkefnið Yfirborð er tilraunakennd rannsókn, leidd áfram af Magneu Guðmundsdóttur, arkitekt og Brynhildi Pálsdóttur, hönnuði. Tilgangur þess er að fá yfirsýn yfir efnisnotkun á yfirborði og skilja ástæður fyrir þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár á ytra byrði bygginga.
Vefsíða verkefnisins, sem hlaut styrk úr Hönnunarsjóði, fór í loftið nýverið en þar er hægt að lesa, skoða og fræðast um yfirborð, vekja upp faglega og gagnlega umræðu um umhverfið.
Að sögn þeirra Brynhildar og Magneu þarfnast upplifun og samhengi bygginga í umhverfi sínu skoðunar, því hið byggða umhverfi á að endurspegla mannlega nærveru og gæði. Ásýnd byggðar og gæði í umhverfi okkar er síendurtekið og þarft umræðuefni. Allt um kring má sjá byggingakrana á fullri ferð og byggð um allt land rís hratt upp.
Yfirborð er rannsókn sem skoðar hið byggða umhverfi, horfir aftur í tímann og fram, skoðar dæmi um yfirborð, ólíkar aðferðir, efnisnotkun, tækni osfv. Hin fullkomna tækni nútímans býr til svo flekklaus yfirborð að innihaldið er nær óþekkjanlegt. Reglugerðir og krafa um lágmarkskostnað leyfa ekki óreiðu eða óvæntar fellur. Verkefnið veltir því fyrir sér hvort við séum kannski komin á leið með að tapa tilfinningunni fyrir efni og gleyma að skynjun manneskjunnar er forsenda þess að staðsetja okkur í umheiminum og tengja okkur við nærumhverfið?
Stöðugt er verið að kanna og rannsaka gæði efna með tilliti til endingar, raka eða burðarþols en lítið eða ekkert fjallað um fagurfræði, ásýnd, tilfinningar eða samhengi.
Tilgangur verkefnisins er að fá yfirsýn yfir efnisnotkun á yfirborði og skilja ástæður fyrir þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár á ytra byrði bygginga. Brynhildur og Magnea safna saman greinum og viðtölum frá fjölbreyttum hópi fólks til þess að búa til stað með vefsíðu verkefnisins þar sem hægt er að lesa, skoða og fræðast um yfirborð, vekja upp faglega og gagnlega umræðu um umhverfi okkar.
Kjartan Hreinsson ljósmyndari og grafískur hönnuður tók myndir af fjölbreyttum yfirforðum í kringum okkur, myndirnar eru einskonar suðupottur fyrir rannsóknina, efni sem veiðum upp og skoðum nánar. Helgi Páll Melsteð hannaði vefsíðu og grafíkina fyrir verkefnið.