Yrki arkitektar hanna nýtt ráðhús á Akureyri
Yrki arkitektar hlutu 1. verðlaun í samkeppni um viðbyggingu við Ráðhús á Akureyri. Samkeppnin var haldin af Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrabæjar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Samkeppnin, sem var opin forvalskeppni, var auglýst 1. mars sl. og var tilkynnt var um úrslitin 19. júlí síðastliðinn.
Í niðurstöðu dómnefndar um vinningstillöguna frá Yrki segir: „Tillagan er í senn bæði nútímaleg, fáguð og ber ytri ásýnd tillögunnar með sér ákveðna festu sem fellur vel að hlutverki hússins sem Ráðhús Akureyrar. Samspil hins nýja við hið gamla ber með sér virðingu fyrir sögu hússins, en slær um leið skýran og metnaðarfullan tón til framtíðar. Með tilkomu þverbyggingarinnar verður til minni inngarður á lóðinni sem gæti orðið skemmtileg viðbót við bæjarmyndina. Inngarðurinn snýr til suðvesturs og færir hluta af starfsemi ráðhússins nær íbúum bæjarins. Þannig má vel sjá fyrir sér að garðurinn verði vinsæll viðkomustaður á góðviðrisdögum bæði meðal starfsmanna ráðhússins og annarra íbúa."
Alls bárust 14 umsóknir um þátttöku í forvalinu. Forvalsnefnd gaf umsóknum stig í samræmi við forvalsgögnin og var niðurstaðan að fjórum arkitektastofum var boðin þátttaka í boðkeppninni: A2F arkitektum, Studio 4A, Studio Granda og Yrki arkitektum.
Dómnefnd lagði höfuðáherslu á eftirfarandi atriði við mat sitt á úrlausnum keppenda:
- Að viðfangsefnið sé leyst á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist sem styrki ímynd hússins sem Ráðhús Akureyrar
- Að nýting rýma sé góð og bjóði upp á sveigjanleika og fjölbreytileika í útfærslu á vinnustöðvum
- Að viðmót byggingarinnar gagnvart almenningi og lóðarhönnun styrki nánasta umhverfi
- Að umferðar-, aðgengis- og öryggismál séu vel leyst
- Að öll byggingarefni uppfylli ítrustu kröfur um góða endingu og lágmarksviðhald
- Að umhverfissjónarmið, sjálfbærni og vistvæn hönnun séu höfð að leiðarljósi við hönnun
- Að viðbygging og breyting á eldra húsi sé góð byggingarlist sem falli vel að umhverfi sínu
- Að tillagan falli vel að heildarkostnaðarviðmiði verkkaupa
Í valnefnd sátu:
- Hulda Sif Hermannsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra Akureyrarbæjar
- Kristján Örn Kjartansson, arkitekt FAÍ
- Sigurjón Jóhannesson, umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar
- Una Eydís Finnsdóttir, arkitekt FAÍ
- Valbjörn Ægir Vilhjálmsson, byggingafræðingur BF
Í dómnefnd sátu:
- Ágúst Hafsteinsson, arkitekt FAÍ
- Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar
- Birkir Ingibjartsson, arkitekt FAÍ
- Hildur Ýr Ottósdóttir, arkitekt FAÍ
- Unnar Jónsson, nefndarmaður í umhverfis- og mannvirkjaráði. (Tilnefndur í forföllum Jönu Salóme I. Jósepsdóttur, áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar)