Þriðjudagsfyrirlestur AÍ: Lavaforming og BioBuilding
Á þriðjudagsfyrirlestri nóvembermánaðar verður lögð áhersla á mannvirkjagerð og loftslagbreytingar. Fyrirlesarar eru Arnhildur Pálmadóttir sem mun fjalla um Lavaforming og Jan Dobrowolski og Anna Karlsdóttir eigendur Ludika arkitekta sem munu fjalla um BioBuilding. Fyrirlesturinn verður haldin 22. nóvember og hefst kl. 20.00. Fyrirlesturinn verður haldinn í Grósku, Bjargargötu 1 í Reykjavík.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 með BA gráðu í arkitektúr. Áður hafði hún unnið á verkfræði- og arkitektastofum á Íslandi og í Noregi, meðal annars við þrívíddarvinnslu og hönnun. Eftir BA námið hóf hún nám við Barcelona School of Architecture - ETSAB en lauk síðar meistargráðu frá Institute for Advanced Architecture of Catalonia. Í fyrirlestrinum mun mun fjalla um verkefnið Lavaforming sem m.a. skoðar það hvernig arkitektúr getur verið hreyfiafl breytinga á tímum loftslagsváar.
Um Lavaforming:
Hvernig ætlum við raunverulega að vinda ofan af áhrifum mannvirkjagerðar á loftslagsbreytingar? Við búum til ný kerfi ofaná kerfi sem eru gölluð til að réttlæta aðgerðir sem eru ekki að gera nægjanlegt gagn. Til að breyta þessu þurfum við að gera róttækar breytingar á því hvernig við hugsum um hagvöxt, nýsköpun, tækniþróun, framleiðslu efna og nýtingu efna sem eru nú þegar til. Lavaforming er verkefni sem lítur framhjá gildum kerfum þar sem notast er við efni, sem enginn á, Hraunmyndanir eða Lavaforming er verkefni hátæknisamfélags sem hefur sagt skilið við gróðamarkmið og er því frjálst að rannsaka nýskapandi og framsæknar lausnir.
Lúdika er íslensk teiknistofa sem byggir á margra ára starfsreynslu frá London, Cairo og Íslandi. Starfsmenn hennar og eigendur eru Anna Karlsdóttir og Jan Dobrowolski. Anna ólst upp á Íslandi og í Svíþjóð, stundaði nám í Reykjavík, Glasgow og London og er með arkitektaréttindi bæði á Íslandi og Bretlandi. Hún hefur mikla reynslu af hönnun húsnæðis víðsvegar um Bretland, Ísland og Noreg. Jan fæddist í Varsjá, ólst upp í Cairo, lærði í Glasgow og öðlaðist arkitektaréttindi í London þar sem hann hefur búið og unnið í rúman áratug. Hann hefur mikla reynslu af hönnun húsnæðis víðsvegar um Bretland og Miðausturlönd.
Um BioBuilding:
Samfélagsdrifið frumkvöðlaverkefni sem snýst um að þróa aðferðir við að nota innlent ræktaðan iðnaðarhamp og nýta hann sem byggingarefni aðlagað að íslensku loftslagi og aðstæðum og stuðla þannig að sjálfbærum og umhverfisvænni byggingariðnaði.