AÍ verður eingöngu fagfélag en ekki fag-og stéttarfélag.
Á síðasta aðalfundi AÍ var samþykkt að leggja niður AÍ sem stéttarfélag. Kjaradeild AÍ hefur gengið inn í Fræðagarð og hvetjum við þá félagsmenn sem
átt hafa aðild að kjaradeild AÍ, þ.e. greitt í BHM gegnum AÍ, að ganga í fagdeild AÍ innan Fræðagarðs, velja sér annað aðildarfélag BHM eins og FÍN, eða velja sér nýtt stéttarfélag. Mikilvægt er að huga að því strax svo réttindi í sjúkrasjóðum og öðrum sjóðum verði tryggð á yfirfærslutímabili.
Aðild að fagfélagi AÍ mun haldast óbreytt og félagsgjöld innheimt í netbanka ársfjórðungslega eða kr. 55.000 árlega.
Hér fyrir neðan er upplýsingagjöf til allra þeirra sem eru félagsmenn AÍ í gegnum BHM.
Réttindi í sjóðum BHM?
Ef valið er að flytja sig til einhverra þeirra stéttarfélaga sem eru innan BHM þá munu áunnin réttindi í sjóðum BHM haldast, að því tilskyldu að greiðsla iðgjalda verði óslitin.
Félagsmenn sem eru í Sjúkrasjóði arkitekta?
Hluti af félagsmönnum AÍ eru í Sjúkrasjóði arkitekta, bæði þeir sem eru í aðildarfélagi AÍ gegnum BHM og þeir sem greiða fagfélagsgjöld. Það að félagsmenn gætu bæði verið í BHM og verið í sjúkrasjóði arkitekta var sérstakur samningur sem gerður var milli BHM og AÍ á sínum tíma. Nú þegar AÍ gengur úr BHM fellur þessi samningur úr gildi. Það gerir það að verkum að þeir félagsmenn sem eru í Sjúkrasjóði arkitekta (iðgjald greitt af vinnuveitanda), hyggjast gera það áfram en óska jafnframt eftir því að ganga í stéttarfélag, þurfa að láta sinn vinnuveitanda vita, þar sem þá þarf að greiða iðgjald í tvo sjúkrasjóði.
Ef stefnt er að því að ganga í stéttarfélag og hætta greiðslum í Sjúkrasjóð arkitekta er hægt að greiða í sjúkrasjóð stéttarfélagsins og Sjúkrasjóð arkitektafélagsins í ákveðinn tíma, oftast 6 mánuði, þar til réttindi í hinum nýja sjúkrasjóði hafa áunnist og þar með hætt að greiða í Sjúkrasjóð arkitekta. Einnig er heimildarákvæði í gr. 2. í úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM vegna félagsfólks sem flyst á milli sjúkrasjóða. Það segir að stéttarfélag geti greitt eingreiðslu sem nemur 1% af heildarlaunum sl. 6 mánaða og öðlast félagsmaður þá frá upphafi rétt til sjúkradagpeninga. Réttur til annarra styrkja ávinnst með hefðbundnum hætti.
Eins og lög gera ráð fyrir þá er hverjum og einum frjálst að velja það stéttarfélag sem viðkomandi telur best þjóna sínum kjararéttindum. Í tilfelli arkitekta sem greiða í Sjúkrasjóð arkitekta getur það hins vegar verið aðeins flóknara mál. Margir atvinnurekendur hafa kosið að greiða 1,5% iðgjald í Sjúkrasjóð arkitekta fyrir sitt starfsfólk, í stað 1% iðgjalda í flesta aðra sjúkrasjóði. Ástæðan fyrir því er sú að þegar um langvinnandi veikindi starfsfólks er að ræða þá hefjast greiðslur sjúkradagpeninga mun fyrr úr Sjúkrasjóði arkitekta en úr öðrum sjúkrasjóðum sem þýðir að atvinnurekendur greiða sjúkradagpeninga úr eigin vasa í mun styttri tíma en annars.
Miðað við núverandi kjarasamninga þurfa atvinnurekendur hins vegar að meta fleiri atriði en ákvæði sjúkrasjóða um sjúkradagpeningagreiðslur þegar meta á hvað sé hagstæðast fyrir rekstur þeirra.
Nú sem aldrei fyrr er þörf á símenntun starfsfólks til að fyrirtæki haldi samkeppnishæfni sinni. Atvinnurekendur ættu því að taka inn í myndina hagræðið af greiðslum úr endurmenntunarsjóðum BHM sem atvinnurekendur geta líka sótt fjármagn í gegn 0,7% iðgjaldi í starfsþróunarsjóð BHM.
Hvað ef ég vil fara í annað stéttarfélag en BHM?
Við færslu aðildar frá BHM til stéttarfélags utan BHM falla réttindi í sjóðum BHM niður. Þau sem velja þá leið þurfa því að kanna hjá viðkomandi stéttarfélagi hvernig réttindi séu tryggð á yfirflutningstímabili.
Hvað þarf ég að gera?
Nú þurfa þau sem átt hafa aðild að kjaradeild AÍ, og greitt í sjóði BHM, að óska eftir því við vinnuveitanda sinn að greitt verði aðildargjald í annað aðildarfélag BHM (Fræðagarð, FÍN eða annað) en einnig að greitt verði árgjald til AÍ ársfjórðungslega.
Það mun í sumum tilvikum hafa í för með sér aukinn kostnað því iðgjald til AÍ sem innheimt hefur verið í gegnum BHM hefur verið 1% af launum. Eftir breytingar þarf viðkomandi félagsmaður að greiða árgjald til AÍ, sem nú er 55.500 kr, en einnig aðildargjald til viðkomandi stéttarfélags, sem hjá FÍN er 0,65% af launum og 0,95% hjá Fræðagarði.
Í Fræðagarði er þegar til staðar faghópur arkitekta.
AÍ sem fagfélag
Þessar breytingar eru gerðar til þess að allur kraftur félagsstarfsins nýtist til að efla AÍ sem fagfélag. Við gerum því ráð fyrir að þau sem hafa greitt árgjald sitt í gegnum BHM vilji halda áfram aðild að AÍ. Þau sem ekki óska eftir áframhaldandi aðild að AÍ þurfa þá að melda sig út úr félaginu með tölvupósti á ai@ai.is.