Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt á DesignTalks 2025

Arnhildur Pálmadóttir er fjölhæfur sérfræðingur með frumkvöðlaviðhorf og áherslu á að vinna að breytingum í arkitektúr og mannvirkjagerð. Hún er stofnandi s.ap arkitekta og rekur útibú Lendager arkitektastofunnar á Íslandi. Arnhildur hlaut menningarverðlaun Norðurlandaráðs 2024 og verður fyrsti fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr í vor.
DesignTalks fer fram í Hörpu þann 2. apríl, undir þemanu Uppspretta.
Arnhildur hefur þverfaglegan áhuga sem hún notar til að takast á við verkefni frá ýmsum sjónarhornum. Hún hefur skrifað greinar og texta sem tengjast nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og smíði auk þess að halda fyrirlestra um efnið. Hún rekur útibú danska arkitektúr- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager á Íslandi sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrás í byggingariðnaði með því að hanna byggingar með helmingi minna kolefnisfótspor en hefðbundnar byggingar. Hún er einnig stofnandi s.ap arkitekta sem einbeitir sér að tilgátuverkefnum tengt arkitektúr með því að ímynda sér nýjan heim og kerfi sem hvetja til nýsköpunar og umbreyta því hvernig við hugsum um mannvirki. Eitt af verkefnum s. ap arkitekta er að kanna möguleikana á að stýra hraunrennsli til að skapa byggingar og borgir. Verkefnið, sem kallast „Lavaforming“, verður fyrsti fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr árið 2025. Arnhildur hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglega vinnu, áherslu á að draga úr losun CO2 í mannvirkjagerð og auka hringrás í byggingariðnaði.
„Við hljótum að geta fundið ný kerfi og aðferðir til að lifa nútíma lífi án þess að eyðileggja hafstrauma og rugla í veðurfarinu.”





