Lina Ghotmeh á DesignTalks 2025

Lina Ghotmeh leiðir stofu sína - Lina Ghotmeh Architecture. Hönnun hennar endurómar upplifunina af Beirút og þann óróleika sem á þátt í að byggja upp hugmyndafræði um “fornleifafræði framtíðarinnar” þar sem ákveðin næmni, tenging við náttúruna og upprunann er ríkjandi.
DesignTalks fer fram í Hörpu þann 2. apríl, undir þemanu Uppspretta.
Ghotmeh er á lista Dezeen yfir 50 valdamestu konur í arkitektúr og hönnun fyrir árið 2024 og á að baki innihaldsríkan feril. Meðal verka hennar eru „Stone Garden“ í Beirút sem hlaut Dezeen verðlaun fyrir verkefni ársins 2021 og var síðan sýnt á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr, í MAXXI í Róm og í Cooper Hewitt safninu í New York. Eistneska þjóðminjasafnið var tilnefnt til Mies Van der Rohe verðlaunanna og Ateliers Hermés er fyrsta orku jákvæða byggingin með lágt kolefnisspor í Frakklandi. Lina Ghotmeh hannaði líka 22. Serpentine skálann í London,.
Ghotmeh hefur starfað sem Louis I Khan prófessor í Yale, Gehry formaður við Toronto háskóla og gegnt prófessorstöðu, Kenzo Tange við GSD Harvard á síðasta ári. Hún hefur hlotið Schelling arkitektúrverðlaunin og Great Arab Minds verðlaunin meðal annarra verðlauna og tilnefninga.
„Heimurinn þarf svo mikla heilun. Það eru svo mörg særð hjörtu og yfirborð, hjá mannfólki en líka í byggðu umhverfi. Rödd hennar er einstök þegar kemur að því að setja hluti í samhengi og veita meiningu, samvinnu við náttúruna og hvernig hún sér framtíðina í fortíðinni” - Hlín Helga, listrænn stjórnandi DesignTalks
Algengast er að hugsa sér að uppsprettan marki augnablik í tíma þar sem eitthvað byrjar eða verður til. Uppspretta hugmynda, innblásturs eða lífs jafnvel! En uppsprettan er líka myndlíking fyrir að endurskoða hugmyndir, taka skref til baka, tengjast aftur upprunanum, hreinsa hugann eða endurnýja sig. Að venju, mun stórkostlegur hópur hönnuða, arkitekta og skapandi hugsuða koma fram á DesignTalks og nálgast þemað út frá ólíkum hliðum.
Taktu daginn frá! Miðasalan á DesignTalks er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins.





