Ask arkitektar hljóta fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu við Reykjanesbraut
Niðurstöður hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og við Reykjanesbraut, auk tenginga við vistvæna ferðamáta í svæðiskjarna í Smára voru kynntar í Kópavogi í dag. Fyrstu verðlaun hlutu Ask arkitektar fyrir tillögu sína.
Bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæði að samkeppninni sem samþykkt var einróma á bæjarstjórnarfundi 11. maí 2021. Samkeppnin var unnin í samvinnu Kópavogsbæjar og Arkitektafélags Íslands og var markmiðið með henni að styrkja svæðiskjarnann í Smára og efla tengsl á milli svæða innan kjarnans fyrir alla ferðamáta.
Eftirtalin atriði vógu þungt við mat dómnefndar á samkeppnistillögum:
– tillaga sýni sterka heildarhugmynd
– tengsl milli svæða innan svæðiskjarnans fyrir alla ferðamáta
– tillaga sýni möguleika á þéttingu byggðar á og við lok/stokk(a)
– sannfærandi nýjar hugmyndir
– staðsetning tengistöðvar fyrir almenningssamgöngur
Í umsögn dómnefndar um tillögu Ask arkitekta segir m.a.:
"Höfundum tekst með tillögunni að sýna fram á að samkeppnissvæðið geti orðið að öflugri samhangandi ein ingu með miklum uppbyggingarmöguleikum. Tillagan endurómar að miklu leyti áherslur dómnefndar. Hér er lögð fram hugrökk leið að því marki að skapa nýtt, mannvænt og spennandi miðbæjarumhverfi fyrir Kópavog. Inngrip í Reykjanesbraut eru mikil og munu gerbreyta öllu yfirbragði svæðisins. Stokkalausn kallar á samtal um aðkomu ríkisins og er tillagan gott veganesti í þá vegferð."
Hér má nálgast dómnefndarálit samkeppninnar
Dómnefndarfulltrúar samkeppninnar
Tilnefndir af Kópavogsbæ
- Hrafnkell Ásólfur Proppé, skipulagsfræðingur, formaður dómnefndar, fulltrúi Kópavogsbæjar.
- Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar.
- Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar.
Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands
- Birkir Einarsson, landslagsarkitekt FÍLA.
- Hans-Olav Andersen, arkitekt FAÍ, MNAL.
Tillögurnar verðar sýndar í Smáralind frá 5.-19. apríl en eru þangað til sýndar í Bókasafni Kópavogs á miðhæðinni.
Rýnifundur verður haldinn í Smáralind miðvikudag 6. apríl kl. 16:30 Í göngugötunni á neðri hæð.