Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Ask mannvirkjarannsóknarsjóð
HMS auglýsir í fyrsta sinn eftir umsóknum um styrki úr Aski - mannvirkjarannsóknarsjóði. Askur er nýr sjóður en hlutverk Asks er að veita styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar, í samræmi við markmið mannvirkjalaga.
Við úthlutun sjóðsins fyrir árið 2021 er lögð áhersla á:
- Raka- og mygluskemmdir: Verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda og hvernig unnt sé að bregðast við þeim með árangursríkum hætti.
- Byggingarefni: Rannsóknir og þróun á byggingarefnum, á endingu þeirra og viðnámsþoli, á efnisvali og notkun í samræmi við lög um byggingarvörur. Einnig verkefni sem stuðla að minna kolefnisspori byggingarefna og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna t.d. með hönnun og eflingu hringrásarhagkerfisins.
- Orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda: Verkefni sem varða orkunýtingu og/eða losun gróðurhúsalofttegunda á líftíma mannvirkja.
- Tækninýjungar í mannvirkjagerð sem auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum: Þróun tæknilegra lausna sem hafa einkum það markmið að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, skilvirkni, samskipti og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði.
- Gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis: Rannsóknir á gæðum íbúðahúsnæðis, hagkvæmni og hvers konar form íbúðarhúsnæðis þurfi að byggja meðal annars með tilliti til þróunar á félagslegum, menningarlegum, tæknilegum og sjálfbærum þáttum.
Heildarfjárhæð til úthlutunar vegna umsókna á árinu 2021 er 95 milljónir kr.
Hver einstakur styrkur sem sótt er um skal ekki nema hærri fjárhæð en 19 milljónir kr. og ekki meira en 70% kostnaðaráætlunar viðkomandi verkefnis.
Bæði lögráða einstaklingar og lögaðilar geta sótt um.
Umsóknarfrestur er til og með 9. desember 2021.
Opinn kynningarfundur um Ask verður haldinn á Teams, 18. nóvember 2021, kl. 12-12:50.
Þau sem hafa áhuga á sækja um í sjóðinn eru hvött til að mæta.
Upptöku af fundinum má svo nálgast á hms.is/askur eftir kynningarfundinn.
Hlutverk sjóðsins
Hlutverk Asks er að veita styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar, í samræmi við markmið mannvirkjalaga.
Í rekstri sjóðsins verður leitast við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og einnig að stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Við hverja úthlutun verður horft til þarfa, eðlis og áskoðana á sviði mannvirkjagerðar, áherslna í nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.
Reglur sjóðsins
Í reglugerð sjóðsins og starfsreglum hans er fjallað nánar um styrkveitingar, fyrirkomulag úthlutana og fleira. Væntanlegir umsækjendur eru hvattir sérstaklega til að kynna sér þau ákvæði.
Fjármögnun og umsýsla
Sjóðurinn er fjármagnaður sameiginlega af félagsmálaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Sjóðurinn heyrir undir félagsmálaráðherra en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast stjórn og daglega umsýslu sjóðsins, þ.m.t. stjórnsýslu og úthlutun.
Fagráð sjóðsins
Barna- og félagsmálaráðherra skipar fimm manna fagráð Asks - mannvirkjarannsóknarsjóðs til þriggja ára í senn. Fagráð skal skipað fulltrúum með sérþekkingu á sviði mannvirkjamála tilnefndum af félagsmálaráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, samstarfsnefnd háskólastigsins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samtökum iðnaðarins. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti. Fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er formaður fagráðsins.
Fagráð skal annast faglegt mat umsókna í samræmi við áherslur á sviði nýsköpunar og atvinnulífs, veita umsögn um styrkumsóknir og gera tillögur til ráðherra um úthlutun styrkja. Fagráð er jafnframt ráðgefandi fyrir ráðherra um fagleg málefni við úthlutanir úr sjóðnum eftir því sem óskað er. Fagráðið skipa:
- Olga Árnadóttir, formaður, tilnefnd af HMS.
- Anna María Bogadóttir, tilnefnd af háskólasamfélaginu.
- Dr. Björn Karlsson, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu.
- Hjörtur Sigurðsson, tilnefndur af SI.
- Guðríður Friðriksdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Nánari upplýsingar
HMS annast rekstur og daglega umsýslu sjóðsins, stjórnsýslu, framkvæmd úthlutunar og samskipti við fagráð sjóðsins. Hægt er að óska eftir frekari upplýsingum með því að senda tölvupóst á netfangið askur@hms.is