Björn Steinar Blumenstein í umfjöllun CNN

12. nóvember 2020

Vöruhönnuðurinn Björn Steinar Blumenstein og verkefni hans Catch of the day er til umfjöllunar hjá fréttavef CNN sem tekur saman áhugaverð dæmi um nýtingu matarafganga til framleiðslu áfengis frá öllum heimshornum.

Verkefni Björns Steinar, Catch of the Day, vekur athygli en markmið þess er að berjast gegn matarsóun með því að framleiða umhverfisvænan vodka.

„Ég hef verið að kafa ofan í ruslagáma í nokkur ár og fékk nóg af því að sjá í ruslinu mat sem ekkert var að. Ég fór í kjölfarið að velta því fyrir mér hvað hægt væri að gera við þetta hráefni,“ sagði Björn Steinar um verkefni í viðtali við HA 2018.

„Allt sem inniheldur meira en 20% alkóhól þarf ekki að hafa „best fyrir“ merkingu. Þar af leiðandi datt mér í hug að koma mætti í veg fyrir að matvælum væri sóað – og gefa þeim endalaust geymsluþol – með því að framleiða vodka úr aflögu matvælum. Ég byrjaði á að vinna þetta með áfengisframleiðendum en það fór gríðarlegur tími í formsatriði sem hægðu á öllu ferlinu. Mér fannst ég þurfa að taka á þessu strax svo ég bjó til frjáls (e. open-source) eimingartæki sem bjóða fleirum að taka þátt í vinnslunni. Þetta er ef til vill ekki fullkomin lausn en engu að síður leið til að koma af stað mjög mikilvægri umræðu. Hugsunin er að minnsta kosti lausnamiðuð.“

Catch of the day var tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2018. Björn Steinar sérframleiddi handspritt fyrir HönnunarMars 2020 í júní sem var byggt á Catch of the day, kallað Limited Covid-19 edition og unnið í samstarfi við matvælainnflytjendur og sporna gegn útbreiðslu Covid-19. Sprittinu var dreift á alla sýningarstaði hátíðarinnar í ár þar sem gestir og sýnendur gátu haft sóttvarnir í fyrirrúmi, með sérhönnuðu spritti. Til framleiðslunnar eru notaðir aflögu ávextir frá matvælainnflytjendum sem annars hefði verið sóað. Brúsunum var svo skilað aftur til Plastplan, fyrirtæki Björns Steinars sem sérhæfir sig í endurvinnslu plastefna, hönnun og fræðslu, en þar fengu þeir nýtt framhaldslíf.

Dagsetning
12. nóvember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vöruhönnun
  • Björn Steinar Blumenstein