Börnin að borðinu er tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Verkefnið Börnin að borðinu eftir Þykjó er tilnefnt sem verk ársins á Hönnunarverðlaununum 2024. Verðlaunin fara fram í Grósku 7. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar:
Ímyndunarafli og sköpunarkrafti barna og ungmenna eru fá takmörk sett — ef þau fá á annað borð tækifæri til þess að sleppa þessum kröftum lausum. Með verkefninu Börnin að borðinu er þeim gefin rödd og mikilvægasta fólkið þannig virkjað til alvöru áhrifa í gegnum það sem þau eru sérfræðingar í — sköpun og leik.
Hönnunarteyminu Þykjó tekst með frábærri nálgun sinni að fanga hugmyndir og smíða úr þeim tillögur að lausnum geta orðið að veruleika. Verkefnið krefst hvort tveggja hugrekkis og trausts því oft er ekki hlustað á börn þó að við heyrum vissulega flest hvað þau segja. Eins er takmörkuð hefð fyrir því að hugmyndum barna og ungmenna sé miðlað af alvöru og virðingu og unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Í verkefni Þykjó er börnum liðsinnt við að hugsa praktískt, hvort sem það á við um leiksvæði eða ruslatunnur. Leikurinn er ávallt í forgrunni auk samveru, náttúru og fegurðar, vegna þess að börn vilja gjarnan blanda geði og þau vilja betri heim öllum til handa.
Það er fagnaðarefni og fordæmisgefandi að hönnun sé notuð til að efla samtal og skilning, m.a. þegar bæjarfélag deilir áformum sínum og draumum um framtíðina með börnum og kallar eftir samstarfi við þau. Þetta var hluti af virku samráði um nýtt rammaskipulag fyrir Ásbrú sem var samstarfsverkefni Kadeco og Reykjanesbæjar og unnið af Alta. Börn og ungmenni eru virkur og dýrmætur hluti samfélagsins og það þarf að gera ráð fyrir sjónarmiðum þeirra og þörfum.
Um:
ÞYKJÓ er þverfaglegt teymi hönnuða sem vinna fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði upplifunarhönnunar, innsetninga og vöruhönnunar. Á meðal nýlegra verkefna er innsetningin Hljóðhimnar í Hörpu, húsgagnalínurnar Kyrrðarrými og Hreiður og þátttökuverkefnið Gullplatan: Sendum tónlist út í geim! ÞYKJÓ hefur verið tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands í tvígang, árið 2021 og 2022 og hlaut tilnefningu til alþjóðlegu YAM verðlaunanna árið 2023. Krakkaráð ÞYKJÓ var stofnað sumarið 2021 sem regnhlíf yfir allt samtal og samstarf sem hönnuðirnir eiga við börn. Með stofnun Krakkaráðsins vill ÞYKJÓ heiðra 12. og 13. grein Barnasáttmálans sem hverfist um virðingu fyrir skoðunum barna.
ÞYKJÓ var stofnað árið 2019 af Sigríði Sunnu Reynisdóttur sem er starfandi listrænn stjórnandi. Ásamt henni vinna arkitektar og hönnuðir úr ólíkum áttum saman í þverfaglegri teymisvinnu. Að þessu verkefni stóðu auk Sigríðar Sunnu þau Erla Ólafsdóttir, Embla Vigfúsdóttir, Ívar Björnsson og Sigurbjörg Stefánsdóttir. Ásamt þeim voru smiðjuleiðbeinendur og þátttakendur í verkefninu Fernanda Fajardo, Stefán Logi Baldursson, Filippa Cecilie Runitz og Ninja Ómarsdóttir
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.