Stafrænn gagnagrunnur fyrir byggingariðnað og útisýning innblásin af skáldskap hljóta hæstu styrki Hönnunarsjóðs
Seinni úthlutun ársins hjá Hönnunarsjóði fór fram í Grósku þann 22. október. 24 fjölbreytt verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs hlutu almenna styrki en 38,8 milljónir voru alls til úthlutunar. Alls bárust 89 umsóknir um almenna styrki þar sem samtals var sótt um tæpar 300 milljónir og 33 umsóknir um ferðastyrki.
Að þessu sinni voru 37 milljónir til úthlutunar í almenna styrki en veittir voru 6 markaðs- og kynningarstyrkir, 12 verkefnastyrkir og 6 rannsóknar- og þróunarstyrkir. Þá voru 11 verkefni sem hlutu samtals 12 ferðastyrki, upp á 150.000 hver.
Hæstu styrkina, 4 milljónir, hlutu Lúdika arkitektar, Trípólí og Kolofon sem fengu rannsóknar- og þróunarstyrk fyrir verkefnið Efnisheimar / Future Matters. Verkefnið samanstendur af stafrænum gagnagrunni og sýningu sem myndgerir vandamál íslensks byggingariðnaðs og varpar fram hugsanlegum lausnum. Þá hlaut Gagarín og Landslag verkefnastyrk fyrir verkefnið„Systir góð! Sérðu það sem ég sé?“ sem er óvenjuleg útisýning að Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar en um er að ræða upplifunarsýningu sem er fyrsti áfanginn í að gera Hraun að nýjum áfangastað þar sem Jónas og verk hans á sviði skáldskapar og náttúruvísinda er þungamiðja upplifunarinnar.
„Verkefnin sem sækja um og hljóta styrki í Hönnunarsjóð endurspegla þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun og arkitektúr. Að þessu sinni er tenging við arfleifð, menningu, náttúru og umhverfið rauður þráður í verkefnum styrkþega en mikil breidd var í umsóknum þar sem nýsköpun, hringrásarhagerfið, samfélagið, verðmætasköpun komu við sögu ásamt alþjóðlegri sókn. Við munum fylgjast spennt með þessum flottu verkefnum dafna og verða að veruleika”
Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar.
Fjölmenni var á úthlutun sem fór fram í Grósku þriðjudaginn 22. október en um var að ræða viðburð það sem fjallað var um framtíðarsýn Hönnunarsjóðs, Ágúst Ólafur Ágústsson veitti gestum innsýn í nýútkomna skýrslu um framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi ásamt því að nokkrir styrkþegar, sem eiga það sameiginlegt að vera tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands héldu örerindi um mikilvægi styrkja Hönnunarsjóðs fyrir framgang verkefna.
Að lokum úthlutaði Marta Nordal sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneyti ásamt Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur, formanni stjórnar Hönnunarsjóðs.
Stjórn sjóðsins í þessari úthlutun skipuðu Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, vöruhönnuður, Kristján Örn Kjartansson, arkitekt, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir, fatahönnuður og Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður.
Hér má lesa nánar um verkefnin sem hlutu styrk úr Hönnunarsjóði:
Markaðs- og kynningarstyrkir
Markaðsátak erlendis - Hildur Yeoman - 2.000.000 kr.
Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman hefur getið sér gott orð heima og erlendis. Verkefnið stuðlar að áframhaldandi kynningu merkisins fyrir utan landsteinanna með fjölþættu kynningarátaki sem miðast við að auka sýnileika erlendis og stuðla að aukningu í sölu.
ANTI WORK Í EVRÓPU - And Anti Matter- 1.500.000 kr.
And Anti Matter kynnir og markaðssetur vörulínuna ANTI WORK (AW) í Evrópu. AW eru handgerðar einstakar flíkur unnar útfrá teikningum eftir &AM hjónin sem eru prentaðar á “up-cycled” bláan evrópskan vinnufatnað. Línan var sýnd á Hönnunarmars og Helsinki Design week við miklar undirtektir og vinsældir.
Eldblóm hvernig dans varð vöruhönnun - Sigríður Soffía Níelsdóttir - 1.500.000 kr.
Eldblóm er fyrirtæki stofnað af listamanninum Siggu Soffíu sem vinnur að því að bjóða neytendum upp á umhverfisvænni og heilnæmari valkost við hefðbundnar vörur á markaði. Vörur fyrirtækisins eru hannaðar út frá dansi og flugeldum. Betra að rækta eða drekka flugelda frekar en að sprengja/menga.
Kynning á viðburðarmenningu í vatni - Unnur Valdís- 1.000.000 kr.
Kynning og markaðsetning á viðburðamenningu í Skeiðalaug í formi upplifunarhönnunar og þjónustu þar sem hönnunarhugsun er virkjuð í skapandi nýjungum sem auka valkosti til að njóta vellíðunar í vatni og auðga baðmenningu Íslands.
Elísa - þroskaleikfang og hönnunargripur - Kristján Schram - 500.000 kr.
Verkefnið er að draga fram í dagsljósið, þróa, framleiða og markaðssetja á Íslandi leikfangið „Elísa“ sem hannað var 1961 af listakonunni Elísu Steinunni Jónsdóttur leirlistakonu.
Salún - Ásrún Ágústsdóttir - 500.000 kr.
Salún er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í heimilistextíl. Hönnunin er óður til hins einstaka salúnavefnaðar. Markmið Salún er að hanna vörur sem gera menningu þjóðar hátt undir höfði, viðhalda þekkingu á aldagömlum vefnaði sem og einstakri sundmenningu.
Verkefnastyrkir
„Systir góð! sérðu það sem ég sé?“ - Gagarín og Landslag - 4.000.000 kr.
„Systir góð! Sérðu það sem ég sé?“ er óvenjuleg útisýning, að Hrauni í Öxnadal, sem er fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar. Upplifunarsýningin er fyrsti áfanginn í að gera Hraun að nýjum áfangastað þar sem Jónas og verk hans á sviði skáldskapar og náttúruvísinda verður þungamiðja upplifunarinnar.
Hakk Gallery - Brynhildur Pálsdóttir og Gunnar Pétursson - 3.000.000 kr.
Hönnunargallerí sem þróar og heldur sýningar á verkum íslenskra og erlendra hönnuða. Markmiðið er að næra grasrótina, ræða hönnun og sjálfbærni og skapa vettvang fyrir smáframleiðslu. Byggja brú sem tengir íslenska hönnun erlendu fagfólki, framleiðendum, kaupendum og skapa útflutningstækifæri.
Hugdetta+1+1+1 Stofnun Framleiðslufyrirtækis - Hugdetta - 2.500.000 kr.
Síðastliðin 20 ár hefur hönnunarteymin Hugdetta hannað fjöldan allan af vörum og sýnt víðsvegar um heim ásamt kollegum úr 1+1+1. Nú er kominn tími á að þróa, framleiða og markaðssetja heilsteypta vörulínu sem mun koma Hugdettu+ á markað sem hönnunarhúsi á alþjóðlegum vettvangi.
FUNDIÐ FÉ – íbúðir á þróunarreitum ríkisins - ÚRBANISTAN- 2.000.000 kr.
Að rýna byggingar og byggingareiti sem eru skilgreindar sem “þróunareignir” í eigu ríkisins. Þessar byggingar eru ýmist ekki í notkun eða með fyrirséða breytta notkun. Verkefnið felst í þróun aðferðafræði við að greina, meta og sýna leiðir, kosti og galla við að umbreyta þeim í íbúðarhúsnæði.
Ristur - Eysteinn Þórðarson - 1.500.000 kr.
Í verkefninu Ristur eru framleidd prentverk upp úr íslenskum þjóðsögum. Aðferðin er tréskurðarmyndir (e. woodblock printing). Verkefnið heldur á lofti íslenskum ævintýrum á tímum sífellt meiri áhrifa frá erlendum miðlum og er ætlað að varpa ljósi á sagnaarf Íslendinga með nýstárlegum myndlýsingum.
Prjónavetur í Listasafni Sigurjóns í Lauganesi - Andrea Fanney Jónsdóttir - 1.000.000 kr.
Prjónavetur í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi. Sýningar, fyrirlestrar og málþing um prjónahönnun og stöðu íslensks prjónaiðnaðar. Umsjón: Andrea Fanney Jónsdóttir textílhönnuður og klæðskerameistari. Sýningarstjóri: Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuður. Málþing: Vík Prjónsdóttir, Magnea, Ýrúarí o.fl
Meiri hagvextir - Grallaragerðin ehf. - 1.000.000 kr.
Verkefnið er framhald af fyrri vinnu með þrívíða skúlptúra úr hagfræðigögnum. Í framhaldsverkefninu vinnur hópur hönnuða saman að því að þróa skúlptúra sem byggja á hagvaxtartölum. Markmiðið er að auka skilning á flóknum efnahagsgögnum og varðveita sögu þjóðar.
Hljómgögn - Hanna Dís Whitehead - 1.000.000 kr.
Húsgögn og heimilismunir úr þæfðri íslenskri annars flokks ull sem geta bætt hljóðvist heimilisins. Annars flokks er enn mjög illa nýtt auðlind en það er nóg til af henni þar sem hún er um helmingur allrar ullar sem er lögð inn.
BAÐ verkefni Epal - Epal - 1.000.000 kr.
Epal er að þróa og framleiða hönnunarlínu, til heiðurs íslenskri baðmenningu, sem samanstendur af 24 vörunúmerum. Nytjahlutir s.s. handklæði, krúsir og glös, sundtaska, sápur, ilmir o.m.fl. Fjórir reynslumiklir hönnuðir hanna vörur sem tilheyra þeirra sviði en saman mynda hlutirnir heildarlínu.
Tákn lands og þjóðar - Hörður Lárusson - 500.000 kr.
Verkefnið er rannsókn og bók um tákn Íslands og þjóðarinnar sem þar býr. Bókin er þrískipt í kaflana; Fáninn, Skjaldarmerkið, Heiðursmerki og orður. Bókin verður mjög sjónræn og fer yfir þá mannlegu sögu sem leiddi til okkar helstu tákna, útgáfurnar sem næstum urðu og sögubrotin þar á milli.
FORM ISLAND Hönnunarárin 1985 – 2000 – Undanfari að því sem síðar varð - Þórdís Zoëga - 500.000 kr.
Vinna að bók "FORM ISLAND Hönnunarárin 1985 – 2000" í máli og myndum. Vaxtaár hönnunar og hönnunarhugtakið að verða hluti af íslensku atvinnu- og menningarlífi. Undanfari að stofnun Hönnunarsafns Íslands, Hönnunarmiðstöðvar og menntun í hönnun og arkitektúr við Listaháskóla Íslands.
Út fyrir boxið – hönnunarhugsun í skólastarfi - Guðrún Gyða Franklín - 500.000 kr.
Kennsluefnið Út fyrir boxið er verkfærakista sem býður upp á fjölmörg tól til að auka fjölbreytni í skapandi kennsluháttum og koma hönnunarhugsun inn í skólastarfið. Markmið verkefnisins er að efla kennara í miðlun og skilningi á aðferðafræði hönnunar og festa hönnunarhugsun í sessi í skólastarfi.
Rannsóknar- og þróunarstyrkir
Efnisheimar / Future Matters - Lúdika arkitektar, Trípólí og Kolofon - 4.000.000 kr.
Stafrænn gagnagrunnur og sýning sem myndgerir vandamál íslensks byggingariðnaðar og varpar fram hugsanlegum lausnum. Þrátt fyrir vel heppnaðar tilraunir frumkvöðla til þess að skapa innlent byggingarefni er aðgengi að því afar takmarkað. Með faglegri rannsókn og miðlun er gerð tillaga að byltingu.
Hringrásarveggur Gler- Basalt arkitektar, Reykjavík Glass, Efla, Jáverk, Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, Elín Þórólfsdóttir - 3.000.000 kr.
Hringrásarveggur úr gleri er sjálfbær innveggur sem nýtir endurunnin efni og endurnýjanlega orku í sína framleiðslu. Hringrásarglerveggur er með umtalsvert minna kolefnisspor samanborið við hefðbundna glerveggi. Áhersla á endurunnið efni og ígrundaða hönnun endurspeglar sveigjanlega, sjálfbæra vöru.
Dýpi - Árný Þórarinsdóttir og Sirrý Ágústsdóttir - 2.000.000 kr.
Dýpi hefur að markmiði að framleiða fyrstu málninguna sem framleidd verður með vottaðri náttúruafurð, kalkþörungum úr Arnarfirði. Markmiðið er að framleiða hágæða, sjálfbæra og umhverfisvæna málningu sem stuðlar að verndun og endurnýjun náttúrunnar og styður við staðbundna atvinnusköpun.
Prótótýpa - Ýr Jóhannsdóttir - 1.000.000 kr.
Textílhönnuðurinn Ýrúrarí þróar Prótótýpu af vörum prjónaðar eftir pöntun á nýja digital prjónavél á vinnustofu sinni í Reykjavík. Vörurnar eru prjónaðar með sérstakri aðferð þar sem nánast enginn efniviður fer til spillis og verður ferlið miðlað áfram á samfélagsmiðlum og á HönnunarMars 2025.
Seinni bylgjan - Lengdur lífsferill staðsteyptra byggingahluta - Arnaldur Bragi Jakobsson - 1.000.000 kr.
Verkefnið kannar vistvæna möguleika á endurnýtingu steypu með því að nýta steypta byggingahluta úr byggingum sem bíða niðurrifs í burðarvirki nýbygginga. Reistar verða frumgerðir veggja úr endurnýttum steypuhlutum til að sýna fram á nýja möguleika í hringhagkerfi, minnkun úrgangs og losunnar.
Hörður Ágústsson: Grafísk hönnun - Studio Studio ehf - 500.000 kr.
Hörður Ágústsson vann á ferli að ólíkum verkefnum innan grafískrar hönnunar. Mörgum verka hafa ekki verið gerð nægilega góð skil eða þau vel skrásett. Umsækjendur vilja vinna að útgáfu um grafísk hönnunarverk Harðar – með áherslu á varðveislu þessa sjónræna arfs.
Ferðastyrkir að upphæð 150.000 kr.
- Sigmundur Páll Freysteinsson, Einkasýning, Kyoto
- Sævar Markús Óskarsson, framleiðsla markaðsefnis,París
- Sólveig Dóra Hafsteinsdóttir, Leit að framleiðanda, Tyrkland
- Simon Joscha Flender, Cooperative Housing project pilots - Educational project, Osló
- Sæunn Kjartansdóttir, Kynningarferð í textílendurvinnsluverksmiðju, Holland
- Kristrún Thors, þátttaka í sýningu á Dutch Design Week
- Elín-Margot Ármannsdóttir, Paskamer Design Residency, Rotterdam
- Arkitektafélag Íslands, Fundur samkeppnisnefnda norrænu/baltnesku arkitektafélaganna, Eistland
- Hanna Jónsdóttir, Hvað skal segja, Stokkhólmur
- Þorbjörg Helga Ólafsdóttir, Risoprent, Glasgow
- Rebekka Ashley Egilsdóttir, Rafvefnaður, Austurríki