DesignTalks 2022 - Valdís Steinarsdóttir, hönnuður
Valdís Steinarsdóttir, hönnuður, kemur fram á DesignTalks 2022, alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburði HönnunarMars, sem varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.
„Með hönnun er hægt að ímynda sér möguleika framtíðar með því að snúa uppá venjur nútímans.“
Valdís Steinarsdóttir, hönnuður útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA í vöruhönnun árið 2017. Hún leggur áherslu á efnisrannsóknir og á að finna vistvænar lausnir á vandamálum nútímans. Með verkefnum sínum leitast hún við að skapa umræðu og vekja fólk til umhugsunar, og koma á jákvæðum samfélagslegum breytingum með hönnun sinni. Valdís hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun sína, meðal annars Formex Nova-Nordic Designer of the year 2020.
DesignTalks 2022 snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp.
Dagskrá dagsins verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.
„Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.”
- Hlín Helga, stjórnandi DesignTalks.
Fylgstu með er við tilkynnum hverjir fleiri koma fram á DesignTalks 2022.