Flétta verðlaunaðar á Maison&Objet í París
Flétta, Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir, voru á dögunum verðlaunaðar sem rísandi stjörnur á frönsku hönnunarvikunni Maison&Objet ásamt því að vera með sýningu þar sem þær frumsýndu ný ljós.
Fókus verðlaunanna í ár voru á unga hönnuði á Norðurlöndunum sem eiga það sameiginlegt að vera undir 35 ára og hafa verið starfandi í 5 ár. Verðlaunahafar koma frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi og á Maison&Objet voru þau öll með sýningu á sínum verkum.
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, afhenti þeim Hrefnu og Birtu Rós verðlaunin við hátíðlega athöfn sem haldin var í húsi Danmerkur (Maison du Danemark) á Champs-Élysées í París á hönnunarmessunni.
Hrefna og Birta sýndu verðlaunaverkin Pítsustund og Loftpúðann ásamt Trophy vörulínunni og frumsýndu einnig ný loftljós úr endurunnum prentplötum. Sýningin vakti mikla athygli og hafa þær varla undan að svara fyrirspurnum erlendra blaðamanna og sýningarstjóra.
„Sýningin gekk mjög vel og við fundum fyrir miklum áhuga á okkar hönnun sem skar sig skemmtilega úr. Þetta er auðvitað fyrst og fremst gríðarlega mikið tækifæri bæði að fá þessa viðurkenningu og athyglina sem henni fylgdi og svo að vera boðið að taka þátt í svona stórri messu eins og Maison&Objet er.“
Verk Fléttu hafa birst á síðum erlendra tímarita í kjölfarið, til að mynda í Ideat og Wallpaper. Lesa má umfjallanir hér að neðan.
Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, 33 og 34 ára, búa og starfa í Reykjavík. Þær stunduðu báðar nám í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og stofnuðu hönnunarstofuna Fléttu árið 2018. Í náminu tóku þær að sér það metnaðarfulla verkefni að safna úrgangi frá hundrað fyrirtækjum í Reykjavík með það að markmiði að búa til efnisbanka sem aðrir hönnuðir gætu nýtt sér.
„Við söfnuðum saman ull, textílefnum, tré, gleri, miklum úrgangi frá sjávarútvegi, netum en svo að vildi það enginn. Þannig við stofnuðum stúdíóið til að nýta það sjálfar til að sýna fram á möguleika þess.“
Hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki vilja þær mennta samfélagið endurvinnslu, endurnýtingu og verðmætasköpun.
„Við vinnum með fyrirtækjum í að kenna þeim að framleiða hluti sem hægt er að geyma lengi og gera við. Þetta ferli útskýrum við einnig fyrir neytendum á einfaldan, skiljanlegan og ekki síst gleðilegan hátt; að hægt sé að skapa hluti sem veita hamingju úr afgangshráefnum.“ Studio Flétta hönnuðu m.a púða úr gömlum loftpúðum.
„Hönnunarsenan er ung á Íslandi. Við erum því mjög frjáls. Við gerum tilraunir. Forfeður okkar gerðu við skyrtur, gerðu nýtt úr gömlu, þau urðu að vera skapandi. Við gerum það sama en með hráefni frá okkar tíma.“