Strik Studio hannar nýtt einkenni Alþingis
Nýtt myndrænt einkenni Alþingis, sem hannað er af Strik Studio, var kynnt á opnunarhátíð Smiðju þann 14. september síðastliðinn. Grafíkin vísar í hjarta Alþingis, þingsalinn þar sem ólíkar skoðanir mætast og komast að samkomulagi.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var til ráðgjafar og hafði umsjón með lokuðu valferli vegna endurmörkunar og gerðar hönnunarstaðals fyrir Alþingi sem fór fram síðastliðið vor. Fjögur teymi tóku þátt og Strik Studio varð á endanum fyrir valinu hjá valnefnd.
Verkefnið fólst í eftirfarandi:
- Að uppfæra og skapa heildstætt einkenni sem sæmir Alþingi og þjónar starfseminni til lengri tíma.
- Að nýtt merki verði einfalt, stílhreint og taki mið af fjölbreyttri notkun og birtingarmyndum í ólíkum miðlum samtímans.
- Að hönnunarstaðall útbúi regluverk um heildarútlit alls efnis sem Alþingi og skrifstofa Alþingis lætur frá sér fara.
Það eru Auður Albertsdóttir, Jakob Hermanns, Snorri Eldjárn og Viktor Weisshappel sem skipa Strik Studio og segja það hafi skipt miklu máli í verkefninu að sýna viðfangsefninu virðingu og vanda vel til verka með það að markmiði að stækka ásýndina og gefa Alþingi fleiri tól til að vinna með í sinni hönnun.
Lagt var upp með að nota áfram Alþingishúsið sem einkennismerki en endurteikna það í einfaldari mynd, svo það henti betur fjölbreyttri notkun samtímans. Hægt er að lesa nánar á vef Alþingis.
„Upphaflega lögðum við til þrjár ólíkar tillögur að merki - fyrir valinu varð að halda áfram með einkennismerki sem sýnir Alþingishúsið en þó í einfaldari mynd sem hentar betur fjölbreyttri birtingarmynd Alþingis á ólíkum miðlum. Þegar við byrjuðum að horfa á húsið sáum við að það myndi ekki ganga að hafa fánann á sama stað og í eldra merki, heldur ákváðum við að færa fánann inn í einkennislitina, en þeir eru blár, hvítur og rauður. Þá er litapallettan innblásin af litunum sem eru inni í Alþingishúsinu sjálfu í bland við gull og silfur.“
Grafíkin vísar í hjarta Alþingis, þingsalinn þar sem ólíkar skoðanir mætast og komast að samkomulagi. Grafíkin er notuð til að stækka heildar útlitið og skreyta þar sem við á.
Letrið er eftir íslensku leturhönnuðina Gunnar Vilhjálmsson hjá Universal Thirst ásamt Gabríel Markan. Letrið heitir Abacaxi og sameinar hefðbundna og nútímalega þætti leturgerðar og þá er leturfjölskyldan stór og læsileg og virkar bæði vel á prenti og á skjá.
Einkennislitirnir byggja á litum íslenska fánans. Merkið er ýmist birt blátt á hvítum grunni eða hvítt á bláum grunni. Rauður grunnur er einnig notaður í ýmsu kynningarefni. Litapallettan sækir innblástur í innanhússliti Alþingis í bland við gull og silfur.
Nýja merkið leysir af hólmi merki eftir grafíska hönnuðinn Þröst Magnússon. Hann hafði verið fenginn til að teikna mynd af Alþingishúsinu fyrir sýningu sem sett var upp í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins sumarið 1994. Í framhaldinu leitaði forysta þingsins til Þrastar um að fá að nota teikninguna sem merki Alþingis. Fram að þeim tíma hafði merki Alþingis verið ríkisfáninn, tjúgufáni, sem þótti ekki hafa næga skírskotun í þjóðþingið umfram aðrar stofnanir ríkisvaldsins.
Merki Þrastar var á margan hátt vel heppnað, hafði sterka skírskotun í stofnunina sem það táknar, var vel kynnt og hefur skapað sér sess. En vegna þess hve fíngert merkið er hentar það ekki að öllu leyti kröfum samtímans um smágerðar merkingar á rafrænu eða öðru formi. Leitað var til Þrastar um hvort hann væri tilbúinn að taka að sér að breyta merkinu til einföldunar en hann hefur lokið störfum og studdi það að boðað yrði til samkeppni meðal hönnuða um nýtt merki Alþingis.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs óskar Alþingi og Strik Studio til hamingju með nýtt einkenni og þakkar fyrir gott samstarf.