Leiðarhöfði - Forval vegna skipulags og hönnunar áfangastaðar/íbúðabyggðar
Sveitarfélagið Hornafjörður auglýsir eftir þátttakendum í forval vegna hugmyndaleitar um skipulag og hönnun áfangastaðar/íbúðabyggðar við Leiðarhöfða á Höfn í Hornafirði. Samkeppnin er haldin í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA.
Markmið með samkeppninni er að fá fram hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins og í kjölfarið vinna deiliskipulag sem byggir á vinningstillögu. Tilgangur er að móta umgjörð um uppbyggingu sem bætir aðstöðu og aðgengi til útivistar og eykur útsýnis- og náttúruupplifun svæðisins jafnt íbúum sem gestum til ánægju.
Leitast er við að fá fram hugmyndir að skipulagi og uppbyggingu svæðisins til lengri tíma. Hönnun útvistarsvæðis, þjónustubyggingar og hóflegrar íbúðabyggðar í samræmi við aðalskipulag. Æskilegt er að öll uppbygging falli vel að umhverfinu og að tillagan sé raunhæf í uppbyggingu.
Samkeppnissvæðið
Svæðið sem um ræðir er tæplega 1 ha. að stærð og afmarkast af Sandbakkavegi til austurs, Sandbakka 1 og 3 til norðurs og Hornafirðinum til vesturs og suðurs (sjá mynd fyrir ofan).
Nánari upplýsingar má finna hér og hér
Fyrirkomulag
Valin verða 5 teymi til þátttöku í samkeppninni og mun hvert þeirra fá greiddar kr. 1.500.000,- fyrir sínar tillögur. Greitt verður aukalega kr. 1.000.000,- fyrir verðlaunatillögu. Sveitarfélagið áskilur sér rétt til þess að nýta lausnir og hugmyndir úr öllum tillögum, hvort sem er að hluta til eða í heild. Sveitarfélagið Hornafjörður stefnir að því að semja við verðlaunahöfunda um gerð deiliskipulags svæðisins.
Teymi þátttakenda þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði
- Öllum er frjáls þátttaka en leitað er eftir þverfaglegum teymum til þess að skila frjóum hugmyndum.
- Í hverju teymi skal vera a.m.k. einn landslagsarkitekt og einn arkitekt. Teymi skal skilgreina teymisstjóra/tengilið sem skal vera landslagsarkitekt.
- Í hverju teymi skal vera aðili sem hefur leyfi til að gera skipulagsáætlanir skv. 25. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
- Kostur er að teymi séu fjölbreytt er varðar reynslu, aldur og kyn.
- Með umsókn skal leggja fram upplýsingar um reynslu af sambærilegum hönnunar- og skipulagsverkefnum, árangur í hönnunar- og skipulagssamkeppnum ásamt ferilskrám þátttakenda.
Forvalsnefnd skipuð fulltrúum sveitarfélagsins og forvalsfulltrúa FÍLA mun fara yfir allar umsóknir sem berast og velja teymi áfram til þátttöku.
Áætluð tímalína hugmyndaleitar
- Forval auglýst 14. október 2021.
- Umsóknarfrestur forvals 5. nóvember 2021.
- Niðurstöður forvals kynntar 12. nóvember 2021.
- Hugmyndaleit hefst 15. nóvember 2021.
- Fyrirspurnarfrestur er til og með 10. desember 2021.
- Svör við fyrirspurnum 17. desember 2021.
- Skil á hugmyndum 20. febrúar 2022.
- Dómnefnd lýkur stöfum eigi síðar en í mars 2022.
Dómnefnd
Fulltrúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar:
Bryndís Hólmarsdóttir, bæjarfulltrúi
Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúi
Sæmundur Helgason, bæjarfulltrúi
Fulltrúar FÍLA:
Hermann Ólafsson, landslagsarkitekt FÍLA
Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt AÍ
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í forvalinu eru beðnir að senda inn upplýsingar fyrir kl. 16:00, dags. 5. nóvember 2021 til Sveitarfélagsins Hornafjarðar: afgreidsla@hornafjordur.is merkt “Leiðarhöfði, forval”.
Ef umsókn er send í pósti er nægilegt að póststimpill sé innan tilskilins tímaramma.
Verkefnisstjóri samkeppninnar og ritari dómnefndar er Jóhanna Helgadóttir, skipulagsfræðingur og arkitekt AÍ, jh@arkthing.is
Trúnaðarmaður dómnefndar er Ólafur Melsted, FÍLA, trundarmadurfila@gmail.com.