Framhald í næsta poka
Framhald í næsta poka er samstarfsverkefni Krónunnar og HönnunarMars þar sem taupokar viðskiptavina Krónunnar eignast nýtt og spennandi framhaldslíf. Verkefnið verður frumsýnt á HönnunarMars í Krónunni á Granda.
Stúdíó Flétta mun taka við gömlum taupokum og hanna nýja, vandaða og eftirtektarverða taupoka úr þeim. Þannig verða endurunnir pokar að listaverki og hönnunarvöru sem um leið stuðlar að sjálfbærni og endurnýtingu. Verkefnið rímar vel við þema HönnunarMars sem hvetur til endurvinnslu, nýsköpunar, verðmætasköpunar, tilraunastarfsemi og leiks.
Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að vekja athygli á framtakinu Taktu poka – skildu eftir poka þar sem viðskiptavinir Krónunnar geta komið með gamla poka í verslanir og tekið sér poka ef þeir gleymast heima. Gömlum pokum er þannig komið aftur í hringrásarkerfið sem stuðlar að fullnýtingu þeirra. Að auki sparast mikilvægar auðlindir og orka sem fara í framleiðslu nýrra poka.
Pokarnir verða til sýnis á HönnunarMars dagana 3.–7. maí en heppnir viðskiptavinir Krónunnar gætu einnig fundið þá á pokastöðvum verslana þar sem þeim verður komið fyrir.
Þetta sjálfbæra deilihagkerfi sem við sköpum í sameiningu verður síðan sífellt stærra eftir því sem fleiri viðskiptavinir taka þátt. Viðskiptavinir Krónunnar skipa því stóran sess í verkefninu með því að muna eftir fjölnota pokunum sínum og skilja þá eftir á pokastöðvum í verslunum Krónunnar. Um leið gefa þeir öðrum viðskiptavinum tækifæri til að leggja sitt af mörkum með því að taka sér poka á stöðvunum í stað þess að kaupa einnota poka.
Stúdíó Flétta var stofnað af Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur árið 2018. Þar er lögð áhersla á staðbundna framleiðslu og fullnýtingu hráefna sem fara annars til spillis. Með því að nýta og endurhanna gamla taupoka varpar Stúdíó Flétta ljósi á verðmætasköpun og mikilvægi hringrásarhagkerfisins. Með umhverfismál, tilraunastarfsemi og gleði í fararbroddi í hönnunarferlinu hefur Stúdíó Flétta orðið eitt áhugaverðasta hönnunarstúdíó landsins.
Krónan tekur sínu hlutverki einnig alvarlega og hefur tekið ýmis skref í átt að aukinni sjálfbærni og umhverfisvænni starfsemi með aðstoð viðskiptavina sinna. Allar verslanir Krónunnar eru svansvottaðar en þar geta viðskiptavinir einnig keypt umbúðalausar vörur eða skilið umbúðirnar eftir í flokkunartunnum í verslununum.
Samstarf Krónunnar og Stúdíó Fléttu tvinnar saman ólíka aðila á spennandi og nýstárlegan hátt. Krónan og Stúdíó Flétta eiga það hins vegar sameiginlegt að vera umhugað um umhverfið og leita í sífellu fleiri lausna til að minnka sóun. HönnunarMars er síðan tilvalinn vettvangur til að hrinda verkefninu í framkvæmd, vekja athygli á því og virkja viðskiptavini Krónunnar til þátttöku.