Viðtal við Dag Eggertsson um framlag Rintala Eggertsson Architects til Feneyjatvíæringsins í arkitektúr árið 2018.
Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er nú haldinn í sextánda sinn. Þemað í ár er Freespace og sýningarstjórn er í höndum hinna írsku Shelley Mcnamara og Yvonne Farrell hjá Grafton Architects (sjá manifesto þeirra hér).
Arkitektastofan Rintala Eggertsson Architects var valin af sýningarstjórunum til að vera með innsetningu í Forte Marghera í borgarhlutanum Mestre. Sigrún Sumarliðadóttir ræddi við Dag Eggertsson hjá Rintala Eggertsson Architects um framlag þeirra, CORTE DEL FORTE dance pavilion.
Þekktuð þið sýningarstjórana áður en þær buðu ykkur að taka þátt á tvíæringnum?
Ekki mikið en við vissum af þeim og öfugt. Ég tók viðtal við þær fyrir 20 árum þegar ég var í stjórn Arkitektafélagsins í Osló og þær voru að koma fram á sjónarsviðið. Þá bauð stjórnin þeim að halda fyrirlestur því okkur fannst þær vera að gera góða hluti og langaði að koma þeim á framfæri. Það er ákveðin samsvörum á milli þess sem er að gerast í arkitektúr á Norðurlöndunum og á Írlandi. Þar er „sóber“ arkitektúr sem tengist rýminu meira en tíðkast í breskri menningararfleið – sem er meira í burðarverkinu, konstrúksjóninni, stálinu og öllu því. Stundum strúktúralískur og manni finnst oft á tíðum tengdur iðnaðarframleiðslu þeirra. En já, við höfðum sem sagt verið í lauslegu sambandi við þær áður. Sami [Rintala] hitti þær þegar hann var eitt sinn prófdómari í Arkitektaskólanum í Mendrisio í Sviss þar sem þær kenna en það var samt ekki fyrr en þær fóru að skoða hvaða stofum kæmi til greina að bjóða á tvíæringinn að þær duttu niður á okkur.
Þær nefna í manifestói sínu meðal annars hugmyndina um orku sem sprettur út frá hugmyndavinnu við gerð bygginga. Þetta minnir á það sem þú hefur talað um áður, það að starf arkitekta feli meðal annars í sér að greina orku viðkomandi staðar og leysa hana úr læðingi.
Já, það er ákveðin samsvörun þarna. Það sem við höfum reynt að þróa í starfi okkar og kenna nemendum okkar er að hafa augun opin fyrir rými á fleiri stöðum en í því sem kennslubækurnar kalla byggingarlist.
Arkitektúr og frumefni hans hafa svo margar birtingarmyndir; í myndlist, tónlist, bókmenntum, dansi, kvikmyndum og ekki síst í náttúrunni. Við erum með öðrum orðum að reyna að nýta okkur það sem liggur fyrir í nánasta umhverfi okkar og mannviti fólks sem við komumst í samband við. Það er stundum eins og maður sé að vinna með „ready-made“ verk þegar verkefnin nánast hanna sig sjálf. Það er líka ákveðin gleði í því að vinna með efnivið sem býr yfir ákveðinni orku og hefur ákveðna sögu og víbrasjónir sem við getum tengt við eitthvað annað. Að geta tengt þetta við nýsköpun er síðan sérlega ánægjulegt.
Það er þetta prinsipp sem þær nota þegar þær eiga við sýningarrýmin í Feneyjum: Að greina þau og rannsaka og athuga hvað kemur í ljós. Þetta á bæði við rýmin í Arsenale og í Central skálanum. Þar kom t.d. í ljós gluggi eftir Scarpa sem hafði verið falin bak við gipsplötur í mörg ár ásamt fleiri atriðum sem hafa ekki fengið að njóta sín lengi. Hver er ykkar túlkun á þema hátíðarinnar – freespace – og getur þú sagt frá ykkar verkefni í því samhengi?
Í okkar huga tengist þetta því sem hefur verið að gerast í hinum vestræna heimi síðustu áratugina og kannski einna mest síðustu árin. Að opinbert rými sé að þróast yfir í einkarými og að stórfyrirtæki eigi orðið stóran hluta opinberra rýma í borgum um allan heim. Annars vegar er það þessi áðurnefnda einkavæðing á opinberu rými og hins vegar pólitískt rými. Það hefur verið skýr þróun í gangi sem er mjög ódemókratísk. Til valda kemst fólk sem vill takmarka mjög tjáningarfrelsi fólks í heiminum. Freespace finnst okkur tengjast opnu og demókratísku samfélagi sem á undir högg að sækja. Þess vegna langaði okkur að hanna og byggja rými sem tengdist þessu frelsi. Að það væri ekki bara tengt einhverjum viðburðum heldur væri hægt að nýta það á þann hátt sem fólk vill. Þess vegna völdu sýningarstjórarnir Forte Marghera, eitt stærsta útivistarsvæði í Feneyjum. Forte Marghera og San Giuliano-garðurinn eru svæði sem borgarstjórn Feneyja vil loka og breyta í einhvers konar safn eða svæði sem fólk þarf að borga sig inn á. Hingað til hefur fólk nýtt svæðin eins og það vill og vanalega er fjöldi fólks á svæðinu um helgar og á kvöldin, nokkurs konar þjóðhátíðardagur á hverjum einasta degi! Það má því segja að Forte Marghera sé Freespace í sjálfu sér, að minnsta kosti samkvæmt skilningi okkar á hugtakinu. Þar af leiðandi var mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á samhengi hlutanna á staðnum til að skilja orkuna sem býr að baki alls þess sem á sér stað á svæðinu.
Það hefur ekki verið mikil tenging við hversdagslegt líf Feneyjarbúa á fyrri tvíæringum og því má það teljast nokkur nýung að leggja áherslu á það nú.
Einmitt. Hugmyndin kom frá sýningarstjórunum þegar við höfðum sýnt þeim hin og þessi verkefni eftir okkur. Þar á meðal dans-lystihús í Vínarborg sem við byggðum með nemendum okkar. Þær sáu undireins að það væri hægt að nýta slíka nálgun í Forte Marghera vegna þess að vikulega eru þar dansaðir þjóðdansar og á sumrin eru haldnar dans/teknó hátíðir. Þegar við vorum að byggja var fólk að gægjast yfir girðingarnar umhverfis strúktúrinn og spyrjast fyrir um hvað þetta væri. Þegar við svöruðum að þetta ætti að vera dansskáli lá við að fólk táraðist, það var svo ánægt með að eitthvað væri gert fyrir heimafólk en ekki bara túristana. Þannig kom líka sú ákvörðun að gefa bæjarfélaginu bygginguna. Að tvíæringnum loknum er það í höndum heimafólks hvað verður um bygginguna og í raun tóku þau við um leið og opnuninni okkar var lokið. Við unnum með Rebiennale (https://rebiennale.org/en/) sem eru fyrst og fremst aktívistar sem berjast fyrir vistvænum Feneyjum. Þau tóku að sér að sjá um að byggingin yrði almenningseign og munu halda umræðunni áfram á lofti.
Geturðu sagt frá þeim og ykkar kynnum – kynntust þið í gegnum sýningarstjórana?
Já, að hluta til. Við kynntumst reyndar Rebiennale í fyrsta skipti þegar við komum að verkefni í Norræna skálanum á tvíæringnum árið 2012. Þá voru þau að falast eftir byggingarefni hjá okkur. Á þeim tíma var hugmyndin að Rebiennale í burðarliðnum en það að endurvinna efni frá tvíæringnum hefur svo þróast yfir í meiriháttar stórt verkefni. Við vissum því af þeim og þegar kom í ljós að við fengjum ekki leyfi til að byggja verkið okkar sjálf ákváðum við að hafa samband. Þá kom í ljós að þau höfðu nýlega skráð sig sem byggingafyrirtæki og gátu tekið að sér tiltölulega viðamikil verkefni. Þetta var því eitt af fyrstu verkefnunum sem þau tóku formlega að sér og tóku það mjög alvarlega því þau vildu sýna að hægt væri að treysta þeim – aktívistunum –fyrir stórum verkefnum.
Voru þau með alveg frá byrjun? Ef ekki, hvenær hófst samstarf ykkar?
Við vorum að vinna og þróa hugmyndir alveg frá því í október. Í febrúarlok vorum við komin í samskipti við Rebiennale og í mars og apríl fóru hlutirnir að gerast. En tvíæringurinn var verkkaupi, ekki við. Við vildum ekki lenda sem milliliðir í flóknu samskipta- og fjármálaferli. Skriffinnskan getur verið flókin og byggingarreglugerðir einnig. Við fengum hlutverk eftirlitsaðila, það var okkar opinberi titill því við máttum ekki byggja en vorum samt á staðnum megnið af tímanum á meðan framkvæmdir stóðu yfir. Það var því auðvelt fyrir tvíæringinn að fylgjast með hvernig gekk. Hvað Rebiennale varðar þá gátum við sýnt þeim hvernig hægt er að gera hlutina. Þau eru jú ekki lærðir smiðir heldur koma úr hinum og þessum áttum, eru arkitektar, listafólk og mannfræðingar sem eru mest í því að þróa betra samfélag í borginni með því að vinna félagsleg verkefni fyrir flóttafólk og fólk sem á í erfiðleikum. Afar áhugaverður hópur sem við eigum eflaust eftir að sjá miklu meira af á næstu árum.
Annar vinkill á tvíæringnum er þessi ótrúlega sóun á efni. Sýningar eru settar upp tímabundið og svo er öllu hent, a.m.k. áður en Rebiennale kom til sögunnar. Hversu mikinn hluta efnanna geta þau notað?
Það fer mikið til spillis og allt endaði á haugunum þar til fyrir svona 5–6 árum. Núna sér Rebiennale um að endurnýta efni í nýjar byggingar þótt þau geti ekki notað nærri því allt. Þegar þau voru í sambandi við okkur kom í ljós að þau vildu að einhverju leyti stjórna efnisnotkuninni hjá okkur með hliðsjón af þeim verkefnum sem voru framundan hjá þeim. Við þurftum að stjaka svolítið við þeim og leggja áherslu á að þetta verkefni væri fyrst og fremst fyrir tvíæringinn en að honum loknum gætu þau séð hvort unnt væri að nýta efnin með einhverjum hætti.
Gátuð þið notað eitthvað efni frá fyrri tvíæringum?
Nei, því miður ekki. Það stóð til að búa til miklu meira af bekkjum og borðum í skálann og nota þá efni frá fyrri tvíæringum en það reyndist of flókið að fá efnið á staðinn, tækjakosturinn til að vinna það var ekki til staðar og svo urðum við að einfalda og minnka umfangið þegar byggingarvinnunni seinkaði.
Þetta er mjög stuttur tími – frá byrjun framkvæmda í mars/apríl fram að opnun í maí.
Já, við byrjuðum ekki að byggja fyrr en um miðjan apríl og ætluðum að klára fyrir mánaðamótin en svo var gerður samningur á milli tvíæringsins og Rebiennale um að þau síðarnefndu fengju lengri tíma vegna annarra verkefna sem þau voru að vinna að. Verkið kláraðist því ekki fyrr en kvöldið fyrir opnun! Við vorum með öndina í hálsinum á leiðinni til Feneyja vegna þess að síðustu álitamálin voru rædd kvöldið áður. Það lá við að við táruðumst þegar við komum þangað beint frá flugvellinum og sáum að þetta var allt saman búið og klárt fyrir opnun.
Hefur það einhverja þýðingu fyrir ykkur að vinna á þessum stað? Í Feneyjum?
Já, það er ekki til arkitektónískari borg. Þetta er staður sem hefur sérstaka þýðingu af því hann er svo nátengdur vatni. Við vorum einmitt að ræða það hérna á stofunni hversu mikil áhrif það hefur að sjá byggingarnar ganga alveg niður í síkin. Já, og svo er þetta borgin sem tengist tvíæringunum í myndlist og arkitektúr. Í fyrsta skipti sem ég kom til Feneyja fór ég gagngert til að sjá og upplifa tvíæringinn í myndlist. Þá sá ég hvað þessar hátíðir eru stórar í sniðum og hversu mikilvægar þær eru fyrir umræðuna um listir og arkitektúr á heimsvísu. Á meðan við vorum að vinna innsetninguna máttum við ekki láta það trufla okkur og urðum að einbeita okkur að því sem við vorum að gera. Því var mjög gott að hitta fólkið sem stendur að baki tvíæringnum og átta sig á því að þetta er bara venjulegt fólk sem vill búa til góða sýningu og leggja sitt af mörkum fyrir umræðuna um arkitektúr. Þegar svona tengsl myndast vill maður leggja sitt af mörkum til þess að verkefnið geti orðið til góðs fyrir sem flesta. Ekki síst fyrir fólkið í Mestre. Þótt þetta sé í fyrsta sinn sem við tökum þátt í aðalsýningunni þá er þetta í fimmta skipti sem við tökum þátt í tvíæringnum þannig að við erum komin með smá reynslu og farið að þykja vænt um þessa dásamlegu borg.
Í manifestóinu fyrir Freespace er lögð áhersla á að arkitektar leggi til einhver auka gæði. Líka í verkefnum sem eru stór og flókin og margir taka þátt í, en í slíku samhengi getur hlutur arkitekta fallið í skuggann. Getur þú sagt aðeins frá ykkar reynslu í þessum efnum, hvernig þið komið ykkur á framfæri þegar verktakar, fjármagn og pólitík eru með í spilinu og arkitektinn á það til að lenda í neðst á listanum?
Þetta er flókin spurning því arkitektúr er svo nátengdur fjármagni og fjárfestingum. Það er ákveðinn hroki að segja að þegar fjármagnið stjórni ferðinni sé ekki rými fyrir arkitektúr. Þannig er það í rauninni ekki. Við höfum rætt þetta þegar við höfum verið í verkefnum fyrir sveitarfélög þar sem fjármagnið er yfirleitt af skornum skammti. Þess vegna er mikilvægt að skilgreina fjárhag sem eina af undirstöðum arkitektúrs. Fjárhagsleg sjálfbærni er eitt af meginatriðunum í vistvænni hugsun. Ef kapítalið hins vegar ræður ferðinni þá lendir arkitektúrinn nánast alltaf í síðasta sæti. Okkar mikilvægasta tenging við verkefni er að leggja til aukin gæði. Sú fjárfesting skilar sér ekki fyrr en eftir að fólk er farið að nota arkitektúrinn, eftir mörg ár, kannski áratugi. Opinberir verkkaupar sækja núorðið meira í þessi gæði – að minnsta kosti hér í Noregi – en ekki einungis hvernig hægt sé að koma út í plús fyrir næstu kosningar. Það er vel hægt að hafa tvær hugmyndir í höfðinu samtímis.
Hvað tekur við hjá ykkur? Vitið þið hvort nota eigi skálann aftur á næsta tvíæringi?
Við vitum það í raun ekki. Það á eftir að koma í ljós og er eflaust háð því hvernig og hversu mikið hann nýtist almenningi. Við höfum fengið spurnir af því að til standi að nota hann á myndlistartvíæringinum á næsta ári en það hefur ekki verið borið undir okkur. Það sem við vitum er að tvíæringurinn er með tímabundið leyfi frá þjóðminjaverði Feneyja fyrir því að skálinn megi standa á Forte Marghera út nóvember næstkomandi. Við höfum sett fram hugmyndir um að hann verði notaður undir sýningar Íslands á tvíæringum framtíðarinnar, því Ísland er enn sem komið er ekki með aðild að arkitektatvíæringinum. Á myndlistartvíæringinum hefur Ísland hins vegar tekið þátt í mörg ár en þá í leiguhúsnæði. Þetta gæti því orðið til þess að koma okkur Íslendingum inn á aðalsýningarsvæðið á Giardini með eigin skála. Það var tekið jákvætt í þessar hugmyndir en eins og með allar byggingar í Feneyjum er það þjóðminjavörðurinn sem hefur síðasta orðið.