Fyrirhugaðar breytingar á Arkitektafélagi Íslands
Aðalfundur Arkitektafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 28. febrúar næstkomandi. Á fundinum verða lagðar fram nokkrar lagabreytingar en ein þeirra, og sú stærsta, er að félagið leggi niður stéttarfélag AÍ og verði eingöngu fagfélag.
Arkitektafélag Íslands hefur starfað sem bæði stéttar-og fagfélag síðan 2014 en fyrsti kjarasamningur milli SI og AI var undirritaður árið 2019. Eins og félagið lítur út í dag er um hundrað félagsmenn í stéttarfélaginu en tæplega 300 í fagfélaginu. Af þessum þrjúhundruð er stór hluti komin á eftirlaun eða eru nemendur í arkitektúr.
Sterkustu rökin fyrir því að leggja niður stéttarfélag AÍ liggja í því að AÍ hefur ekki bolmagn til að sinna því að vera framúrskarandi stéttarfélag. Skrifstofa AÍ hefur síðan 2017 sinnt því að vera bæði skrifstofa stéttarfélagsins AÍ og fagfélagsins AÍ. Nú er komin nokkra ára reynsla á starfsemi AÍ sem stéttarfélags og fagfélags og hefur reynslan kennt okkur að það er snúið að reka bæði AÍ sem fag-og stéttarfélag. Kjarabarátta hefur mikið breytst á undanförnum árum og í sjónmáli eru enn meiri og gagngerri breytingar en við höfum áður séð. Sú þjónusta sem stéttarfélög eiga að veita sínum félagsmönnum krefst sífellt meiri sérþekkingar og lögfræðiþekkingar. Til að geta sinnt félagsmönnum okkar sem best og sinnt faginu sem best þykir stjórn farsælast að stéttarfélagshluti félagsins sé betur komið fyrir hjá sérhæfðum aðilum á því sviði.
Hvað verður um stéttarfélagsaðild mína hjá BMH?
Um leið og AÍ leggur niður aðild sína hjá BHM þá hættir félagsaðild þín bæði hjá BHM og AÍ.
Get ég sótt um í öðru stéttarfélagi innan BHM?
Já, til að tryggja þau réttindi sem þú hefur unnið þér inn innan BHM væri best fyrir þig að skipta um stéttarfélag innan BHM. Alls eru 27 aðilarfélag innan BHM, þ.á.m. Félag íslenskra náttúrufræðinga og Fræðagarður en bæði þessa félaga hafa gert samning við ríki, borg og SI. Innan Fræðagarðs hefur verið stofnaður faghópur arkitekta sem allir arkitektar geta verið hluti af. Þar geta allir háskólamenntaðir sótt um aðild en það er jafnframt langstærsta stéttarfélagið innan BHM.
Hvað verður um réttindi mín?
Ef þú flytur þig strax yfir til annars stéttarfélags innan BHM þá missir þú ekki nein réttindi heldur færast þau yfir milli aðildarfélaga.
Hvernig skipti ég um aðildarfélag?
Til að ganga inn í annað aðilarfélag BHM þá þarf a) að sækja um aðild í því félagi (gerist á heimasíðu félags) b) láta vinnuveitanda vita að þú hafir skipt um stéttarfélag og að þú óskir eftir því að iðgjaldagreiðslur færist frá AÍ yfir til X.
Er ég ennþá félagsmaður AÍ ef AÍ hættir í BHM?
Ef að þú hefur verið félagsmaður AÍ í gegnum BHM þá hættir félagsaðild þín um leið og AÍ hættir aðild að BHM. Til að tryggja að þú sért áfram félagsmaður í AÍ getur þú annarsvegar sent póst á netfangið ai@ai.is eða sótt um félagsaðild á vef félagsins www.ai.is