Gagarín kemur að þremur nýjum sýningum í Noregi
Íslenska hönnunarstofan Gagarín, í samstarfi við danska fyrirtækið Kvorning og norska fyrirtækið Bright, sigraði nýverið alþjóðlega samkeppni um hönnun á þremur heimsminjasýningum UNESCO í Noregi.
Gagarín hefur auk þess skilað tveimur nýjum hönnunarverkefnum inn í norskra sýningar að undanförnu, annars vegar Rockheim, rokksafnið í Þrándheimi og hinsvegar Klimahuset sem er sýning um loftslagsmál í Náttúruminjasafninu í Osló.
Heimsminjasýningar UNESCO
Heimsminjasýningarnar sem Gagarín mun taka þátt í að hanna og framleiða verða settar upp á þremur stöðum í Noregi. Þar um að ræða sýningar um Vega eyjaklasann, Geirangursfjörðinn og hellaristurnar sem finna má í Alta í norður Noregi. Allt eru þetta einstakir sögu- og náttúruminjastaðir en alls má finna átta UNESCO svæði í landinu.
Á næstu mánuðum mun Gagarín ásamt samstarfsaðilum sínum þróa sýningarnar sem settar verða upp í gestastofum hvers staðar fyrir sig, en fyrsta sýningin opnar í lok þessa árs.
Rockheim
Rockheim í Þrándheimi, sem hóf starfsemi árið 2010, er án efa metnaðarfyllsta rokksafnið sem finna má á Norðurlöndum. Nýverið var opnaður nýr safnahluti sem tileinkaður er norskri tónlist frá árunum 2000-2020. Tímabilið einkenndist af fjölbreyttri tónlist, en ekki síður af ævintýralegri framþróun í aðgengi að henni í gegnum stafræna miðla, geisladiska, iPod og svo streymisveitur eins og Spotify sem eru með yfir 30 milljarða laga á sínum snærum.
Stærra atriðið þekur þrjá stóra veggi sem umlykja gestina. Með því að handleika hringlaga viðmót, sem líkist iPod, geta gestir valið sér lög úr stórum hópi listamanna og farið um leið í ferðalag um þessa fyrstu áratugi 21. aldar. Gestirnir upplifa hljóðræna og sjónræna veislu um leið og þeir uppgötva tengsl ólíkra þátta innan tónlistar-geirans, bæði tengsl á milli tónlistarstefna og einstaklinga sem starfa innan hans.
Plötuspilararnir eru annað atriði sem gefa gestum tækifæri á að sökkva sér inn í athyglisverð þemu sem einkenndu tímabilið. Þeir uppgötva áhrif internetsins á tónlistarbransann og hvernig tónlistarframleiðslan gjörbreyttist. Eins fá gestir yfirsýn yfir hina ýmsu sjónvarpsþætti sem skotið hafa upp kollinum á tímabilinu og gefið tónlistarmönnum tækifæri, allt frá 15 mínútna frægðinni til varanlegrar heimsfrægðar.
Klimahuset
Klimahuset eða Loftslagshúsið er hluti Náttúruminjasafns Oslóarháskóla. Það var stofnað til þess að hvetja norsk ungmenni til virkrar þátttöku í baráttunni gegn loftslagshlýnuninni.
Sýningin var hönnuð og samin af þverfarlegu teymi vísindamanna frá Oslóarháskóla og CICERO auk arkitekta, sýningarhönnuða og sérfræðinga í gagnvirkri miðlun.
Gagarín hannaði stærsta atriði sýningarinnar en það samanstendur af fjórum stórum vörpunarflötum sem taka á ólíkum þemum tengdum loftslagsbreytingum þ.e. ofsaveðrum, bráðnun jökla og eyðingu vistkerfa. Á milli þema-mynda birtast listrænar gagnvirkar hreyfimyndir sem vekja gesti til enn frekari umhugsunar um jörðina og hversu viðkvæm hún er fyrir átroðningi mannanna.