Gagarín og Kvorning Design vinna hönnunarsamkeppni í Noregi
Hugmynd hönnunarstofunnar Gagarín ásamt Kvorning Design og Creative Technology var hlutskörpust í samkeppni á vegum Norska iðnaðarsafnsins (NIA) fyrir nýja sýningu sem fjallar um atburði sem áttu sér stað í seinni heimsstyrjöldinni þegar Þjóðverjar hernámu þungavatnsverksmiðjuna í Þelamörk. Þungavatnið átti að leggja grunninn að gerð fyrstu kjarnorkusprengjunnar.
Norska andspyrnuhreyfingin með hjálp breta komu í veg fyrir þessi áform með skemmdaverkaaðgerð þegar þeir sprengdu verksmiðjuna í loft upp. Aðgerðin, sem fékk nafnið “Operation Gunnerside”, hafði mikil áhrif á mannkynssöguna.
Safnið er staðsett í vatnsaflsvirkjuninni í Rjúkan í Harðangursfirði sem er á heimsminjaskrá UNESCO vegna einstakrar iðnaðarsögu.
Gagarín ásamt samstarfsaðilum munu miðla sögunni á gagnvirkan hátt í bland við hefðbundnari leiðir og hefur Gagarín meðal annars þróað sjónauka þar sem gestir geta skyggnst inn í fortíðina og fræðst um helstu áskoranir hernaðaraðgerðarinnar. Auk þess verður hægt að fá innsýn í framleiðsluferil á þungu vatni og upplýsingar um vélarnar sem framleiddu það. Fyrsti hluti sýningarinnar verður opnaður í júní á þessu ári.
Meðal annara verkefna sem Gagarín hefur unnið að í Noregi að undanförnu er Náttúruminjasafnið í Osló en sýningin nær yfir meira en 2000 fermetra sýningarsvæði og skartar nokkur þúsund safngripum og gagnvirkni af ýmsum toga.
Nánari upplýsingar má finna hér.