Hannar gönguskó úr joggingbuxum fyrir herferð Íslandsstofu
Fatahönnuðurinn Ýr Þrastardóttir var fengin til að hanna gönguskó úr joggingbuxum fyrir nýja markaðsherferð Íslandsstofu. Hún mun standa vaktina í sumar í miðbænum og breyta buxum í skó fyrir ferðamenn.
Ýr er fatahönnuður að mennt, heldur úti merkinu Another Creation auk þess að hafa unnið mörg skemmtileg verkefni í gegnum tíðina á sviði fata- og búningahönnuður fyrir kvikmyndir, tónlistarmyndbönd, leikverk ofl. Hún hefur samt aldrei áður hannað skó en það verður hennar vinna í sumar þegar Ýr stendur vaktina í miðbænum og breytir buxum í skó fyrir ferðamenn.
Verkefnið er hluti af nýrri markaðsherferð Íslandsstofu ætlað að lokka ferðamenn til landsins. Myndband er komið í loftið með frumsömdu lagi tónlistarmannsins Ásgeirs Orra Ásgeirssonar "Sweatpant Boots" í flutningi rapparans Rögnu Kjartansdóttur sem er einnig þekkt sem Cell 7. Þar er sjónum beint að einkennisfatnaði heimsfaraldursins – joggingbuxunum – og fólk hvatt til að loka þessu tímabili með táknrænum hætti og enduruppgötva ævintýraþránna á Íslandi.
„Auglýsingastofan Peel hafði samband við mig um miðjan maí með þetta verkefni. Ég átti frekar erfitt með að skilja nákvæmlega hvað átti að gera þar sem hugmyndin er óneitanlega frumleg og skrýtin. Úr því hófst rannsóknarvinna um hvernig framleiðslunni ætti að vera háttað en upphaflega planið var að reyna að finna íslenska skóframleiðendur sem hanna fjallgönguskó. Stofan vildi reyna eftir fremsta megni að vinna þetta alfarið hér heima en því miður er ekki hægt að gera skó frá grunni hérna svo úr varð að velja erlendan skóframleiðanda,. Fyrir valinu varð að vinna með Will´s Vegan sem gerir 100% vegan gönguskó svo að verkefnið mætir ítrustu kröfum um umhverfissjónarmið.“
Verkefnið snýr að því að nýta gamlar joggingbuxur og gera úr þeim nýja áður óþekkta tegund af skóm. Skó sem hægt er að ganga í upp á fjöll, eru úr endurnýttu efni og sömuleiðis áberandi öðruvísi en venjulegir gönguskór.
„Til að byrja með sá ég fyrir mér að ég þurfti að nota skó sem væru í raun bara botn með sokk og svo yrðu buxurnar handsaumaðar við á einhvern hátt. Þar sem skór eru þrívídd vara þá er ekki hægt að koma þeim undir saumvél. En ég hafði samband við Daníel skósmið hjá Þráinn skóara og hann kenndi mér á skóvél sem getur saumað í gegnum hörðustu efni og þá fór boltinn að rúlla.“
Ýr segir ferlið fara þannig fram að hún teiknar upp snið af tungu, ökkla, hliðum og tá af hverri stærð fyrir sig. Þessi snið eru svo saumuð saman og gengið frá endum í iðnaðarsaumvél. Því næst er gert ráð fyrir reimum og saumað á framstykkið teygjufestingar fyrir þær. Hún handsaumar svo tunguna og ökklastykki á skóinn og í lokinn fara skórnir í gegnum skóvél þar sem allt stykkið er fest niður framan á skóinn með leðurþræði. Allt er þetta tímafrekt ferli.
Ýr segir frábært að hafa fengið þetta tækifæri og gott að sjá að hönnun með fókus á endurnýtingu og sjálfbærni hafi fengið að leika svona stórt hlutverk í herferðinni.
„Ég hef sjálf verið með þann fókus sem hönnuður og til að mynda með merkið mitt Another Creation hef ég einungis unnið með náttúruleg efni sem eyðast sjálfkrafa. Þess vegna er þeim mun skemmtilegra að nýta gamlar buxur, sem eru mögulega úr gerviefni og glæða þær nýju lífi svo þær endi ekki í ruslinu.“
Framundan hjá Ýr er svo skemmtilegt sumar, þar sem hún verður með vinnustofu á Skólavörðustíg. Tekur á móti ferðamönnum sem koma inn með gömlu buxurnar sínar og saumar handa þeim hressandi par af nýjum gönguskóm. „Það gerir þetta einstaklega skemmtilegt að ég veit í raun ekkert hvað það er sem ég á í vændum og verða þessir skór líklega mjög skrautlegir margir hverjir og engin 2 pör eins.“
„Í júlí verður erlendum ferðamönnum gert kleift að endurvinna margnotuðu joggingbuxurnar sínar, umbreyta þeim gönguskó og halda á vit ævintýranna á Íslandi. Skórnir verða handgerðir og fáanlegir í takmörkuðu upplagi gegn því að mæta á staðinn og framvísa flugmiða til Íslands og notuðum joggingbuxum. Skórnir eru unnir í samstarfi við fatahönnuðinn Ýr Þrastardóttur,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu.
Fyrir þá sem ekki komast til landsins er hægt að sækja landið heim með rafrænum hætti - í gönguskónum - á þessari síðu hér.
Herferðin stendur í ellefu vikur, en megin áhersla verður lögð á Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Danmörku og Svíþjóð.