Hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifar um hönnun og arkitektúr :
Það getur verið áskorun að lýsa því í aðeins þremur orðum fyrir hvað maður stendur og hvert maður vill stefna. Í tilviki Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er mikilvægt að lýsingin endurspegli þann metnað og kraft sem einkennir starfsemina. Niðurstaðan hittir í mark. „Hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar.“
Það getur verið áskorun að lýsa því í aðeins þremur orðum fyrir hvað maður stendur og hvert maður vill stefna.
Í tilviki Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er mikilvægt að lýsingin endurspegli þann metnað og kraft sem einkennir starfsemina.
Niðurstaðan hittir í mark. „Hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar.“
Eftir fjögurra ára samskipti mín við breiðfylkingu hönnuða og arkitekta hika ég ekki við að taka undir hvert þessara orða.
Hreyfiafl er sannarlega lýsandi fyrir þá nálgun og kraft sem einkennir starf miðstöðvarinnar. Tækniframfarir og samfélagslegar áskoranir gera það að verkum að stöðnun er einfaldlega ekki valkostur.
Sjálfbærni er ekki ný krafa en sígild, og raunar rúmlega það því að gildi hennar og mikilvægi fer sífellt vaxandi. Miðstöðin hefur sýnt með verkum sínum að hún er í fylkingarbrjósti þegar kemur að útbreiðslu á aðferðafræði skapandi hugsunar og þar með grænna og sjálfbærra lausna.
Verðmætasköpun er fólgin í því að auka og efla hvers kyns samstarf hönnuða og fyrirtækja. Segja má að við stöndum á margan hátt frammi fyrir því að „nýskapa“ heilan heim. Í því verkefni er hönnun uppspretta verðmæta, sem gefur nýsköpun vængi, tryggir samfélaginu arð og fólki eftirsóknarverð störf.
Megi starf Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs halda áfram að blómstra í þeim suðupotti nýsköpunar sem Grósku hugmyndahúsi er ætlað að vera.