Skörp sýn til framtíðar
Kristján Örn Kjartansson, formaður stjórnar og Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, varaformaður stjórnar skrifa fyrir hönd stjórnar Miðstöðvar hönnunar arkitektúrs:
Árið 2020 gleymist seint sökum fordæmalausra aðstæðna í heiminum öllum. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tókst á við árið lausnarmiðað og sneri allri fyrirstöðu í möguleika með bjartsýni að vopni. Stjórn studdi við bak starfsmanna miðstöðvarinnar í þeim breytingum sem þurfti að ráðast í og réðist sjálf í margar breytingar á árinu.
Nafni miðstöðvarinnar var breytt úr Hönnunarmiðstöð Ísland í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auk þess sem nýjar áherslur og nýtt einkenni var kynnt til leiks. Miðstöðin flutti í nýtt húsnæði í Grósku og nýr vefur miðstöðvarinnar og fagfélagana allra opnaði á árinu. Miðlun tók miklum breytingum á árinu, nýjar leiðir voru teknar í gagnið í stafrænni miðlun sem mun hafa áhrif til framtíðar.
HönnunarMars gat ekki farið fram á tilsettum tíma en fór fram í júní og tókst frábærlega, sem má þakka ötulu starfi stjórnenda og starfsmanna hátíðarinnar og góðri þátttöku hönnuða og arkitekta. Hönnunarverðlaunum Íslands 2020 var frestað til janúar 2021 en þau voru veitt í stafrænni útsendingu sem fékk mjög mikið áhorf.
Það er von stjórnar að þær breytingar sem ráðist var í á árinu styrki starf miðstöðvarinnar og efli faglegt umhverfi hönnuða og arkitekta á komandi árum. Árið 2021 verður áfram breytingum háð og horfir stjórnin með opnum hug á alla þá möguleika sem samfélag okkar mun bjóða upp á.