Helga Valfells og Andri Snær Magnason taka sæti í stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Ný stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs hefur tekið til starfa en hana skipa Kristján Örn Kjartansson, arkitekt formaður stjórnar, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, innanhússarkitekt varaformaður, Þórunn Hannesdóttir vöruhönnuður, Andri Snær Magnason, rithöfundur og Helga Valfells, fjárfestir og eigandi Crowberry Capital.
Á aðalfundi Miðstöðvarinnar í Grósku í júní var samþykktum breytt þannig að fimm manna stjórn tekur við af níu manna stjórn félagsins. Hún er skipuð þremur fulltrúum félaganna sem eiga og reka Miðstöðina ásamt tveim fulltrúum úr atvinnulífi. Markmið breytinganna er að auka breidd og styrkja stjórnina og um leið efla tengsl við atvinnulíf og stjórnvöld í rekstri Miðstöðvarinnar.
Fulltrúar félaganna níu skipa nú hluthafahóp sem tekur þátt í að móta félaginu stefnu og tryggja sterk tengsl við bakland Miðstöðvarinnar.
Helga hefur starfað sem meðeigandi vísisjóðsins Crowberry Capital frá árinu 2017. Helga hefur unnið sem fjárfestir í nýsköpun frá árinu 2009 og hefur setið í stjórnum yfir 20 nýsköpunarfyrirtækja. Helga hefur jafnframt verið stjórnarmaður í Íslandsbanka, Símanum og Frumtaki. Áður en að Helga sneri sér alfarið að málefnum nýsköpunar öðlaðist hún víðtæka reynslu af fjármálum og markaðsmálum í gegnum störf sín hjá Útflutningsráði, Estee Lauder í Bretlandi , Merrill Lynch og Íslandsbanka. Jafnframt hefur Helga unnið sem aðstoðarmaður ráðherra og sendifulltrúi hjá alþjóða Rauða Krossinum. Helga er með B.A. gráðu frá Harvard Háskóla og MBA gráðu frá London Business School.
Andri Snær er rithöfundur sem hefur starfað með fólki á flestum sviðum listgreina. Hann hefur fengið íslensku bókmenntaverðlaunin í öllum flokkum og bækur hans hafa verið gefnar út í yfir 40 löndum. Hann hefur starfað náið með hönnuðum og arkitektum. Hann var hluti af teyminu bak við Krikaskóla í Mosfellsbæ sem var tilnefndur til Mies Van Der Rohe verðlaunanna og Ok minnismerkið sem var tilnefnt til Beazley's Design of the Year Award 2020 af Design Museum í London.
Það eru spennandi tímar framundan og frábært að fá svo öflugt fólk með víðtæka og ólíka þekkingu inn í nýja stjórn. Miðstöðin hefur vaxandi hlutverki að gegna og mikilvægt að ná að breikka og efla starfsemina í takti við nýjar þarfir, áskoranir og breytta heimsmynd.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar sem byggir á hönnun og arkitektúr. Miðstöðin stuðlar að auknu samstarfi milli hönnuða og fyrirtækja og vinnur að því að efla hönnunardrifna nýsköpun sem mótandi afl í samfélagi og atvinnulífi framtíðar á Íslandi.
Við bjóðum nýja stjórnarmeðlimi velkomna og hlökkum til farsæls samstarfs!