Samtal um framtíð byggða á hönnun, hugviti og nýsköpun
Í tilefni af afhendingu Hönnunarverðlauna Íslands 2021 fór fram samtal um framtíð byggða á hönnun, hugviti og nýsköpun undir stjórn Hrundar Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóri Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Snörp erindi frá tilnefndum verkefnum og fróðlegar pallborðumræður.
Í ár voru fimm framúrskarandi verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs tilnefnd: made in reykjavík eftir Magneu Einarsdóttur, Hjaltalín - ∞“ eftir grafíska hönnuðinn Sigurð Oddsson, myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann, Söluhús við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta, Konur sem kjósa eftir Snæfríði Þorsteins, Hildigunni Gunnarsdóttur og Agnar Frey Stefánsson og hönnunarverkefnið Þykjó eftir hönnuðina Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Ninnu Þórarinsdóttur, Sigurbjörgu Stefánsdóttir og Erlu Ólafsdóttur. Öll komu þau fram og veittu gestum innsýn inn í verkefnin.
Búi Bjarmar, hönnuður braut svo upp dagskránna með gjörningi byggðan á Mannyrkjustöðinni, sem krafðist skemmtilegrar þátttöku gesta.
Eftir stjórnaði Hrund pallborðsumræðum þar sem þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs skiptust á skoðunum undir yfirskriftnni um framtíð byggða á hönnun, hugviti og nýsköpun.
Við þökkum þátttakendum og gestum kærlega fyrir komuna. Kaffitár sá um að enginn gestur færi kaffiþyrstur inn á viðburðinn með sérhönnuðum haustdrykk Hönnunarverðlaunanna. Ljósmyndir eftir Aldísi Pálsdóttir en upplifunarhönnuður Hönnunarverðlauna Íslands 2021 var Signý Jónsdóttir, vöruhönnuður.