HönnunarÞing á Húsavík
HönnunarÞing, hátíð hönnunar og nýsköpunar fer fram á Húsavík dagana 4 og 5 október annað árið í röð. Í ár er áherslan á tónlist og margvíslegar birtingarmyndir snertiflata hönnunar, nýsköpunar og tónlistar. Það verða sýningar, fyrirlestrar, tónleikar, námskeið og sitthvað fleira á dagskrá.
Á dagskránni eru meðal annars innlegg frá bátahönnuði, fjárfesti og stjórnarmanneskju frá Bang & Olufsen, tölvuleikjahönnuði, þá verður hugarheimur Skálmaldar ræddur þar sem myndmál, menningararfur og textasmíði tvinnast saman, ný íslensk hljóðtækni verður kynnt af verðlaunuðum íslenskum frumkvöðlum, pallborðsumræður um það hvernig á að raungera
klikkaðar hönnunar- og tónlistarhugmyndir og stórkostlegt tónlistarfólk með uppákomur þar sem upplifunarhönnun er lykilþáttur.
Einnig munu nemar í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vera að störfum á Stéttinni alla vikuna.
Dagskráin kynnir í gegnum tóna og tal hvernig spila má á strengi nýsköpunar, þjálfa sköpunarvöðvann og sjá hugmynd verða að veruleika. Líka dans.
Prógrammið er sett saman sem skapandi málþing. Stundum er staðið, stundum er setið - en alltaf eitthvað sem eflir andann. Frítt er inn á flesta viðburðina og öll velkomin á eitt eða allt
Að hátíðinni stendur Hraðið miðstöð nýsköpunar á Húsavík með vöruhönnuðinn Stefán Pétur Sólveigarson í fararbroddi. Samstarfs og styrktaraðilar fagna framtakinu og leggja sitt að mörkum til að vekja athygli á atvinnulífi á sviði nýsköpunar og skapandi greina. Með viðburðinum er meðal annars leitast við að opna augu fólks fyrir möguleikum þess að vinna að hönnun og öðrum skapandi greinum um allt land.
Hraðið er líflegur heimavöllur frumkvöðla, stofnana og fyrirtækja sem vinna að nýsköpun með einum eða öðrum hætti og leggur Stefán Pétur mikið upp úr því að hvetja hugmyndaríkt fólk áfram og spinna stuðningsnet um allt land.