HönnunarMars fyrir fróðleiksþyrsta
Nú er HönnunarMars á næsta leiti en á dagskrá hátíðarinnar í ár eru rúmlega 100 sýningar og 200 viðburðir. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
HönnunarMars fer fram dagana 4. - 8. maí. Hér að er listi af áhugaverðum fyrirlestrum, málþingum og samtölum fyrir fróðleiksfúsa hönnunarunnendur í leit að innblæstri.
DesignTalks
DesignTalks fer fram þann 4. maí í Silfurbergi Hörpu undir listrænni stjórn Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur. Dagskráin stendur frá kl. 9:00 til 17:00 og samanstendur af þremur hlutum hver með með ólíkt þema, þar sem flutt verða erindi í bland við samtöl og óvænta viðburði ásamt góðum hléum til þess að fá sér kaffi og spjalla saman. Kynnir í ár er Marcus Fairs en hann er ritstjóri og stofnandi hönnunarmiðilsins Dezeen. Heill dagur af innblæstri frá skapandi hugsuðum og framtíðarrýnum sem varpa ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr geta tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga. Fróðleiksþyrstir mega alls ekki láta þennan viðburð fram hjá sér fara.
Kvenkyns frumkvöðlar og Sögulegar byggingar
Norræna húsið, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, efnir til málstofu í tveimur hlutum í tilefni af HönnunarMars, fimmtudaginn 5. maí kl. 10:00 - 14:30. Hópur sérfræðinga mun kynna okkur fyrir sögu og verkum norrænna kvenkyns arkitekta, sem teljast brautryðjendur á sínu sviði. Báðir hlutar málstofurnar tengjast sögu Norræna hússins.
Kvenkyns frumkvöðlar, fyrri hluti málstofunnar, er tileinkaður nokkrum af þeim merkilegu konum sem hafa sett kraftmikið spor í byggingarsöguna. Í öðrum hluta málstofunnar Sögulegar byggingar heyrum við frá arkitektatvíeykinu Kurt og Pí og vinnu þeirra við söguleg hús á Íslandi auk þess heyrum við þeirra inntak vegna komandi endurbóta Norræna hússins í Reykjavík.
Hönnunarsjóður í 10 ár
Á tíunda starfsári Hönnunarsjóðs Íslands er ástæða til að líta yfir farinn veg og varpa ljósi á mikilvægt og verðmætaskapandi starf sjóðsins. Af því tilefni verður blásið til viðburðar í fyrirlestrarsal Grósku, föstudaginn 6. maí kl. 15:00 – 17:00. Þar munu valdir styrkþegar veita innsýn í verkefni sín og hvaða þýðingu Hönnunarsjóður hefur haft fyrir framgang þeirra.
Klæðnaður og velgengi
Fatnaður og velgengni í íslenska bankakerfinu er fyrsti hluti doktorsverkefnis Lindu Bjarnar Árnadóttir í félagsfræði við HÍ. Verkefnið rannsakar hvernig klæðnaður og tíska geta verið notuð sem tæki til þess að miðla upplýsingun líkt og stöðu, sjálfsmynd og framsækni en einnig til þess að skapa ný tækifæri og innleiða félagslegar breytingar. Markmið rannsóknarinnar er að skilja mikilvægi tísku og klæðnaðar innan íslenska bankakerfisins nú og í kringum bankahrunið árið 2008 og hvernig þær breytingar sem fylgdu í kjölfarið höfðu áhrif á hugmyndir um hvað þótti við hæfi þegar kom að klæðnaði. Fyrirlesturinn fer fram í Petersen svítunni, föstudaginn 6. maí frá kl. 17:00 - 18:00.
Uppskölun – valdir hönnuðir vinna með Carrara marmara
Þann 5. maí kl. 15:00 mun Luciano Massari, listamaður og rektor við Listaháskólann í Carrara, halda fyrirlestur í Safnahúsinu við Hverfisgötu þar sem hann mun fjalla um eðli Carrara marmarans og listrænt gildi hans í gegnum aldirnar. Fyrirlesturinn er í tengslum við sýninguna Uppskölun í Listasafni Íslands þar sem valdir hönnuðir hafa unnið verk sérstaklega með Carrara marmara.
Sjálfbær ferðamennska í norðri
Samtal um hönnun, hreina orku og náttúruvernd. Slástu í för með okkur á viðburð um hreina orku og ábyrga hönnun í þágu náttúrunnar: Þann 6. maí fer fram kynning verkefnanna Hönnun í náttúru, Hrein orka og Náttúruvernd sem eru angar af formennskuverkefni Íslands árið 2019 í Norrænu ráðherranefndinni undir yfirskriftinni Gagnvegir góðir. Verkefnin endurspegla sameiginlegt markmið Norðurlandanna um að þróa ferðamennsku á sjálfbæran hátt, í ljósi tækifæra og áskorana ferðamennsku á svæðum þar sem viðkvæm, öflug og aðlaðandi náttúra er helsta aðdráttaraflið.
Design Diplomacy
Design Diplomacy snýr aftur en í fjórða sinn bjóða erlendir sendiherrar hönnuðum frá sínum heimalöndum að taka þátt í opnu samtali við íslenska kollega á HönnunarMars. Sendiherrarnir opna dyrnar að heimilum sínum og veita gestum einstakt tækifæri til þess að hitta hönnuði og sækja sér innblástur.
Design Diplomacy x Bandaríkin
Michelle Yerkin, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, býður gestum og hönnuðum til sín á Engjateig 7, föstudaginn 6. maí frá kl. 16:00 til 18:00. Sallyann Corn (BNA), hönnuður frá Seattle, kennari, sýningarstjóri og einn af stofnendum hönnunarstofunnar fruitsuper og Theodóra Alfreðsdóttir vöruhönnuður með aðsetur í London eru þátttakendur samtalsins.
Nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn og síðasti dagur til að skrá sig í Design Diplomacy X Bandaríkin er mánudagurinn 2. maí. Skráning fer fram HÉR.
Design Diplomacy x Finnland
Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands á Íslandi, býður gestum og hönnuðum til sín í samtal að Hagamel 4, fimmtudaginn 5. maí frá kl. 12:00 til 14:00. Laura Pehkonen (FI), leirhönnuður og listamaður og Hanna Dís Whitehead (IS), vöruhönnuður taka þátt í samtalinu.
Nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn. Skráning fer fram HÉR.
Design Diplomacy x Noregur
Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi, býður gestum og hönnuðum til sín í samtal að Fjólugötu 15, föstudaginn 6. maí frá kl. 16:00 til 18:00. Hönnuðurnir sem taka þátt í samtalinu eru Elisabeth Stray Pedersen(NO) sem hefur unnið að fata- og textíliðnaði bæði í Noregi og á alþjóðlegum vettvangi, og Magnea Einarsdóttir(IS), fatahönnuður, rekur fatamerkið sitt MAGNEA.
Nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn. Skráning fer fram HÉR.
Design Diplomacy x Danmörk
Kirsten Geelan, sendiherra Danmörku á Íslandi, býður gestum og hönnuðum til sín í samtal að Hverfisgötu 29, þriðjudaginn 3. maí frá kl. 16:00 - 18:00. Kent Martinussen (DK), danskur arkitekt og framkvæmdastjóri Miðstöðvar arkitektúrs í Danmörku og Halla Helgadóttir (IS), framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, með víðtæka reynslu sem hönnuður og stjórnandi, verða þátttakendur í samtalinu
Nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn. Skráning fer fram HÉR.