Viðburðir fyrir umhverfið á HönnunarMars
Nú er HönnunarMars á næsta leiti en á dagskrá hátíðarinnar í ár eru rúmlega 100 sýningar og 200 viðburðir. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
HönnunarMars fer fram dagana 4. - 8. maí. Hér að neðan höfum við tekið saman nokkra viðburði sem gætu verið sérstaklega áhugaverður fyrir þau sem hafa áhuga á sjálfbærni og endurnýtingu, hringrásarhagkerfinu, vistvænni hönnun og endurvinnslu.
Valdís Steinarsdóttir x 66° Norður
Valdís Steinarsdóttir hefur að undanförnu verið að rannsaka nýjar leiðir við framleiðslu á fatnaði þar sem hún hellir náttúrulegu fljótandi efni í tvívítt mót. Með þessari aðferð verða engar afklippur til. 66° Norður hefur gengið til liðs við Valdísi og stefnir á að framleiða regnkápur undir merki fyrirtækisins þegar þróun þess verður komin lengra. Á HönnunarMars 2022 verða efnisprufur til sýnis til að gefa forsmekk af því sem koma skal í samstarfinu í framtíðinni.
Efnisheimur steinullar
Efnisheimur steinullar veitir innsýn í efnisrannsókn Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur þar sem skoðaðir eru möguleikar á endurvinnslu steinullar auk þess sem leikið er með fráfallsefni sem myndast við framleiðslu hennar á Íslandi. Hráefnið sem skapast er svart glerjað efni sem minnir á hrafntinnu sem nú er friðuð.
Plastplan: Frumgerð
Sýningin „Frumgerð“ er annar fasi í stóru verkefni sem miðar að aukinni úrvinnslu á endurunnu plasti, með áherslu á afurðasköpun. Vörulínunnar „Everyday“ er afrakstur þessa fasa og verður hún sýnd í fyrsta skipti og vörurnar kynntar til sölu. Síðastliðin ár hefur Plastplan hannað, þróað og byggt vélar og ferla til að endurvinna plast sem er notað til að framleiða margvíslegar afurðir á vinnustofu þeirra á Granda.
Coat-19
Coat-10 er úlpa, eftir Tobia Zambotti & Aleksi Saastamoinen, fyllt með einnota grímum sem safnað var af götum Reykjavíkur þegar sett var á grímuskylda til ða hamla útbreiðslu Covid-19. Verkefnið vekur athygli á hinni fáránlegu mengun sem fylgir faraldrinum.
Að SPJARA sig í sjálfbærum heimi: Framtíð fataneyslu á Íslandi?
Hvernig liti heimurinn út ef tíska væri fullkomlega sjálfbær? Hvernig geta hringrásarlausnir eflt íslenska hönnun?
Fataleigan SPJARA býður almenningi að virkja sköpunargleðina og taka þátt í að móta framtíðarsýn fyrir sjálfbæra framtíð íslenskrar tísku á samhönnunar (co-design) viðburði SPJARA. Á POP-UP leigu SPJARA býðst gestum einnig að klæða sig upp og leigja sér sparifatnað yfir hátíðina. Boðið verður upp á nýjar og notaðar hönnunarflíkur en sérstök áhersla verður lögð á vandaða íslenska hönnun
Erm x 66°Norður
Erm er vörulína eftir Arnar Inga Viðarsson og Valdísi Steinarsdóttur þar sem ermar af annars ónýttum flíkum frá 66°Norður eru notaðar sem áklæði á nýja gerð stóla. Verkefninu er ætlað að opna á samtal um hvernig hægt sé að framlengja líftíma neytendavara á framsækinn hátt þvert á vöruflokka.
FÓLK 2022
Íslenska hönnunarmerkið FÓLK hefur sölu á tveimur nýjum vörulínum eftir íslenska hönnuði á HönnunarMars 2022. FÓLK veitir einnig innsýn í aðferðir fyrirtækisins og hönnuða þess til að innleiða áherslur sjálfbærni, hringrásar og lágmörkun kolefnisfótspors. Evrópusambandið metur að 80% af umhverfisfótspori vöru sé ákvarðað í hönnunarferlinu, svo spurningin er hvernig hönnuðir geti hannað okkur inn í nýrri og umhverfisvænni heim? FÓLK hefur þegar tekið fyrstu skrefin í þessari vegferð og býður gestum að fylgjast með.
Þráðhyggja
Fatahönnuðirnir Bosk og Sól gefa innsýn inn í endurvinnsluferli á textíl ásamt því að frumsýna fatalínu úr endurnýttum þæfðum viskastykkjum. Þráðhyggja snýst um að lengja líftíma úrgangstextíls með endurnýtingu og þróun aðferða sem byggðar eru á þekktu íslensku handverki og klassískum aðferðum. Með verkefninu er vonast til að leggja grunn að hringrásarhagkerfi fyrir úrgangstextíl á Íslandi sem miðar að því að fullnýta förguðum textíl frá hrávöru, þar sem textíllinn er tættur niður í þræði eða trefjar, og endurunninn í nýja afurð.
Vitund
Textílfélagið stendur fyrir samsýningu sem er hvatning til að huga að leiðum og lausnum á sviði endurvinnslu og endurnýtingar. Með því að sýna hvernig hægt er að nýta aftur það sem þegar hefur verið búið til eða á nýjan hátt er hægt að hafa jákvæð áhrif á framleiðsluhringrásina.
Flétta x 66°Norður
66°Norður og Flétta sameina krafta sína með það að markmiði að fullnýta hráefni frá framleiðslu 66°Norður. Flétta hefur síðustu mánuði gert tilraunir með afskurði frá framleiðslu á fatnaði 66°Norður, þeir hafa verið soðnir, saumaðir og vafðir saman í ólík form í leit að réttu samhengi fyrir hráefnið. Á sýningunni verður gefin innsýn í þetta tilraunakennda ferli sem oftar en ekki er hulið almenningi.
Rusl er misskilningur
Jarðgerðarfélagið sýnir ferli, áherslur og útkomu við hönnun og prófun á nýju endurvinnsluferli á lífrænum „úrgangs“ í Rangárvallasýslu. Á sýningunni er gestum boðið að skoða samband sitt við lífræna „ruslið“ sitt, hvaða viðhorf þau hafa til þess og hvað við gerum til að losa okkur við það. Að sama skapi skoðum við mikilvægi þess að hanna fyrir samfélagsþátttöku og hvaða möguleikar felast í því að sveitarfélög og íbúar vinni saman að sjálfbærri framtíð.