Hönnunarsjóður í 10 ár
Á tíunda starfsári Hönnunarsjóðs Íslands er ástæða til að líta yfir farinn veg og varpa ljósi á mikilvægt og verðmætaskapandi starf sjóðsins. Af því tilefni verður blásið til viðburðar í fyrirlestrarsal Grósku, föstudaginn 6. maí kl. 15–17.
Þar munu valdir styrkþegar veita innsýn í verkefni sín og hvaða þýðingu Hönnunarsjóður hefur haft fyrir framgang þeirra.
Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Dagskrá:
- Eydís Kvaran flytur verk á Dórófón sem er nýtt raf-akústísk, strengjahljóðfæri, þróað í um áratug af Halldóri Úlfarssyni myndlistarmanni og hönnuði og hlaut styrk úr Hönnunarsjóði 2020. Kemur einnig fram á viðburði í Elliðaárstöð á HönnunarMars, sjá hér.
- Birna Bragadóttir formaður Hönnunarsjóðs
- Pikkolo er skilvirkt og heildstætt dreifikerfi fyrir matvæli sem versluð eru á netinu. Verkefnið leggur áherslu á þverfaglega hönnunardrifna nálgun frá upphafi til þess að auka líkur á því að lausnin leiði til róttækra breytinga á því hvernig við nálgumst matvælin okkar í framtíðinni með umhverfis- & notendavænni hætti. Hlaut styrk 2021.
- Plastplan Re:maker, stærsti iðnaðar þrívíddarprentari sem til er á markaði, eftir hönnunarstudioið og plastendurvinnsluna Plastplan sem sérhæfir sig í endurvinnslu á plasti. Sérstaða prentarans er að hann getur prentað stóra nytjahluti úr endurunnu plasti verður langt um stærsti prentarinn á markaði. Hlaut styrk 2021. Plastplan er með sýningu á HönnunarMars, sjá hér og hér.
- Vistbók er nýsköpunarverkefni í íslenskum byggingariðnaði sem miðar að þróun á verkfæri fyrir sjálfbærari byggingariðnað. Vistbók auðveldar fagaðilum sem og húseigendum að velja umhverfisvottaðar byggingarvörur og utanumhald á byggingum í umhverfisvottunarferli. Verkefnið hlaut styrk úr Hönnunarsjóði 2021.
- Gagarín hlaut styrk árið 2020 fyrir verkefnið, Mixed Reality: "The big picture of Climate Change" sem felur í sér rannsókn, hönnun, tilraunir, þróun vísindalegrar frásagnar og miðlunar tölfræði í raun og sýndarheimi sem snýr að loftslagsbreytingum.
Hlé
- Flétta hönnunarstofa, Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir, í samvinnu við Kristínu Sigurðardóttir, hönnuð hlutu styrk 2020 fyrir að skoða möguleika á endurvinnslu steinullar í nýtt hráefni. Verkefnið gefur fyrirheit um spennandi og óhefðbundna möguleika á endurvinnslu steinullar sem krefst frekari rannsókna. Verkefnið er til sýnis í Hafnarborg á HönnunarMars í ár.
- Fúsk, Gufunesi er skapandi gámasamfélags að erlendri fyrirmynd sem er sjálfstæð hugsjónadrifin rannsóknarstofa þar sem frumkvæði fær að blómstra í kraftmiklu andrúmslofti. Áhersla lögð á þverfaglegt samstarf innan hönnunarheimsins, endurnýtingu og samfélagslega menntun. Hlutu styrk 2020.
- Hönnunarfyrirtækið Fólk er nýsköpunarfyrirtæki stofnað árið 2017 til að ýta undir hönnun og framleiðslu sem styður sjálfbærni og hringrás hráefna auk þess að vera stökkpallur fyrir íslenska hönnuði á erlendri grundu. Fyrirtækið hlaut styrk fyrir markaðssetningu í Evrópu 2019. Fólk er með sýningu á HönnunarMars, sjá hér.
- Hönnunarstudíóið As We Grow framleiðir fatnað en sérkenni hönnunarinnar felst í að stærðirnar duga allt að því helmingi lengur en stærðir hefðbundins fatnaðar þar sem er hugsað vandlega um hvert skref í ferlinu, frá hönnun til efnisvals og frá framleiðslu á flíkinni til áframhaldandi lífdaga hennar. Fyrirtækið hefur hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2016. Fyrirtækið hlaut styrk fyrir markaðssetningu í Japan 2015. As We Grow er með sýningu á HönnunarMars, sjá hér.
- Síðan Flothetta kom á markað 2012 hafa orðið til áhugaverðar og endurnærandi nýjungar í baðmenningu þjóðarinnar. Hönnunin hefur náð að skapa heim upplifanna og nærandi samveru í vatni. Segja má að Flothetta hafi ekki einungis gefið af sér samfélag, heldur einnig menningu. Í heimi heilsu og vellíðunar er það trú okkar að íslensk hönnun líkt og Flothetta geti verið leiðandi og skapandi afl í að þróa og kynna fyrir heiminum djúpslakandi og endurnærandi vatnsmeðferðir.
- Lilja Alfreðsdóttir menningar– og viðskiptaráðherra verður með ávarp.
Kynnar eru Greipur Gíslason og Edda Kristín Sigurjónsdóttir
Léttir drykkir og spjall