Hönnunartengdir viðburðir á Safnanótt

Hér er yfirlit yfir hönnunartengda viðburðadagskrá á Safnanótt, Góða skemmtun!
Barbie fer á Hönnunarsafnið

Á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar kl. 20:00 opnar sýningin Barbie fer á Hönnunarsafnið.
Barbie er nýjasti gesturinn á fastri sýningu safnsins Hönnunarsafnið sem heimili, yfirlitssýningu muna úr safneign Hönnunarsafnsins sem settir eru fram innan grunnmyndar af heimili.
Barbie hefur gert sig heimakomna í öllum rýmum sýningarinnar – íklædd sérsaumuðum fatnaði eftir fjölbreyttan hóp íslenskra fatahönnuða – og minnir okkur á að við erum aldrei of gömul til að leika okkur. Það verður auðvitað mikið stuð í safninu þegar Barbie mætir á Safnanótt, Ljótikór flytur lög eftir Spilverk Þjóðanna og framhaldinu leiðir Sigga Soffía dans í smiðjunni.
Dönsum með Siggu Soffíu

Á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar kl. 21:15, Dansað með Siggu Soffíu á Hönnunarsafni Íslands. Sigga Soffía og DJ Ívar Pétur bjóða upp á gott stuð í smiðjunni á Safnanótt í kjölfarið á opnun á sýningunni Barbie fer á Hönnunarsafnið.
Rafhleðsla og orkuhleðsla á Safnanótt í Elliðaárstöð

Elliðaárstöð tekur þátt í Safnanótt í annað sinn með rafmagnaðri dagskrá 7. febrúar frá 18-21 í samstarfi við Orku náttúrunnar.
Rafleiðsla er einstakur viðburður sem verður haldinn að öðru sinni í vélarsal gömlu rafstöðvarinnar í Elliðaárstöð, en viðburðurinn sló eftirminnilega í gegn á Safnanótt í fyrra.
Rafleiðsla er hljóðbað sem gengur út á samtal í gegnum djúpa hlustun (e. deep listening) og stillta hugleiðslu (e. tuning meditation). Verkið er einskonar dans á milli fyrirfram samdra tónsmíða og spuna sem mun flæða samfleytt í 3 tíma um vélarsalinn. Gestum er velkomið að fara inn og út úr rýminu eftir hentisemi.
Tónlistarfólkið sem kemur fram er Osmē (Benedikt Reynisson, Helgi Örn Pétursson og Þórður Bjarki Arnarson), R • O • R (Gyða Valtýsdóttir og Úlfur Hansson), Sóley (Sóley Stefánsdóttir) og Svartþoka (Día Andrésdóttir, Ólöf Rún Benediktsdóttir og Unnur Björk Jóhannsdóttir) ásamt nýmiðlalistamanninum Leó Stefánssyni.
Rafleiðsla er hluti af Vetrarhátíð og er aðgangur ókeypis fyrir öll.
Bakhjarlar Rafleiðslu eru Tónlistarborgin Reykjavík og Orka náttúrunnar.
Skutlusmiðja ÞYKJÓ

Skutlusmiðja Þykjó, laugardaginn 8. febrúar kl. 13:00 í Lindasafni.
Á skutlusmiðju ÞYKJÓ setjum við okkur í spor flugvélahönnuða og verkfræðinga. Hvaða form flýgur lengst? Hvað gefur skutlunni byr undir báða vængi? Viltu setja glugga á þína skutlu?
Smiðjan fer fram á Lindasafni, Núpalind 7. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.